Langstærsta farsóttarhótel sem íslenska ríkið er með í notkun er fullt af óbólusettum ferðamönnum í sóttkví. Rauði krossinn vill fá þá á venjuleg hótel, svo að hægt sé að koma fólki í einangrun í viðunandi aðstæðum.
Farsóttarhúsin hafa þurft að vísa Covid-sjúkum Íslendingum frá sem eiga bókstaflega í engin önnur hús að venda.
„Ég veit um tvö dæmi þess að fólk þurfti að sofa út í bíl í nótt,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsanna.
Skýtur það skökku við?
„Það gerir það óneitanlega, en þetta er mál sem við þurfum að leysa.“
![](https://www.visir.is/i/EC0EA0B5C4AE5038E2B2CDF8E2D60D4FFEF386F23F4767099AAA3659FC868700_713x0.jpg)
Það gæti orðið bót í máli fyrir farsóttarhúsin að sóttvarnalæknir hefur stytt einangrunartíma hraustra Covid-sjúklinga úr tveimur vikum niður í 10 daga, að því gefnu að þeir hafi verið einkennalausir í þrjá daga.
Það breytir því þó ekki að farsóttarhúsin þurfa pláss. Þegar eru 250 í einangrun í farsóttarhúsi eftir innanlandssmit og 40 í sóttkví vegna slíkrar útsetningar. Á móti eru 170 herbergi tekin undir, sem eru þar óbólusettir í sóttkví eftir komuna til landsins.
„Ef að þeir gætu verið annars staðar væri málið leyst,“ segir Gylfi.
Álagið á sjúkrahúsinu er enn nokkuð, meðal annars vegna sumarleyfa. Enn meira er það á smitrakningarteyminu þessa stundina eftir að fréttir bárust af styttri einangrunartíma: Fólk vill vita hvort það er sloppið úr einangruninni. Í gær greindust að minnsta kosti 112 með veiruna og fyrirséð er að smitum fjölgar enn á næstu dögum.
Krabbameinsdeild Landspítalans slapp með skrekkinn í dag þegar í ljós kom að jákvæð niðurstaða sjúklings úr Covid-sýnatöku reyndist fölsk, og sjúklingurinn veirufrír.