Erlent

Al­þjóðaólympíu­nefndin krefst út­skýringa af Hvíta-Rúss­landi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Alþjóðaólympíunefndin hefur krafið Hvíta Rússland um útskýringar á meðferð Ólympíuliðs landsins á Krystsinu Tsimanouskayu.
Alþjóðaólympíunefndin hefur krafið Hvíta Rússland um útskýringar á meðferð Ólympíuliðs landsins á Krystsinu Tsimanouskayu. Getty/EPA

Alþjóðaólympíunefndin hefur krafið Hvíta-Rússland um að skila inn skýrslu síðar í dag um meðferð hvítrússneska Ólympíuliðsins á spretthlaupara, sem flúði lið sitt og leitaði skjóls í pólska sendiráðinu í Tókýó, þar sem Ólympíuleikarnir fara fram.

Hvítrússneski spretthlauparinn Krystsina Tsimanouskaya leitaði á laugardag skjóls í pólska sendiráðinu í Tókýó eftir að þjálfarar hennar höfðu reynt að senda hana nauðuga heim til Hvíta-Rússlands frá Tókýó, þar sem hún átti að keppa í spretthlaupi á mánudag. Fréttastofa Reuters greinir frá. 

Pólland hefur veitt Tsimanouskayu dvalarleyfi af mannúðarástæðum og hefur hún sótt um pólitískt hæli í landinu. Áætlað er að Tsimanouskaya fljúgi frá Tókýó til Varsjár á morgun, miðvikudag. Eiginmaður Tsimanouskayu, Arseni Zhdavenich, flúði Hvíta-Rússlands í gær og er kominn yfir til Úkraínu.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sakaði í gær stjórn Alexanders Lúkasjenkó forseta í Hvíta-Rússlandi um óþolandi kúgun, sem væri farin að smitast út fyrir landsteinana.

Tsimanouskaya var tekin úr keppnisliði Hvíta-Rússlands á laugardag, að hennar sögn vegna þess að hún hafði gagnrýnt þjálfara sína á samskiptamiðlinum Telegram. Gagnrýnin snerist að því að þjálfararnir höfðu skráð hana til leiks í 400 metra boðhlaupi vegna þess að liðsmenn hennar, sem áttu að keppa í greininni, voru ekki með keppnisleyfi því tilskilin lyfjapróf vantaði.

Ólympíunefnd Hvíta-Rússlands hefur haldið öðru fram og tilkynntu þjálfarar Tsimanouskayu að hún hafi verið tekin úr liðinu að læknisráði vegna andlegrar líðan hennar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×