Þetta er í fyrsta sinn sem Egyptaland kemst í undanúrslit á Ólympíuleikum og jafnframt í fyrsta sinn sem lið frá Afríku kemst svona langt.
Þýsku strákarnir hans Alfreðs Gíslasonar eru hins vegar úr leik. Þeir náðu sér ekki á strik í leiknum í dag og voru alltaf í eltingarleik.
Egyptaland byrjaði leikinn af miklum krafti og komst í 1-6. Egyptar leiddu svo með 2-4 mörkum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Staðan að honum loknum var 12-16, Egyptalandi í vil.
Egyptar gáfu ekkert eftir í seinni hálfleik og hleyptu Þjóðverjum aldrei nær sér en þremur mörkum. Undir lokin jókst munurinn og varð mestur sjö mörk. Þegar uppi var staðið munað fimm mörkum á liðunum, 26-31.
Í undanúrslitunum mætast Egyptaland og Frakkland annars vegar og Danmörk og Spánn hins vegar. Undanúrslitaleikirnir fara fram á fimmtudaginn.
Ali Mohamed og Yahia Omar skoruðu fimm mörk hvor fyrir Egyptaland. Julius Kühn var langbesti leikmaður þýska liðsins og skoraði sex mörk líkt og Johannes Golla.
Karim Handawy varði frábærlega í egypska markinu, alls átján skot, á meðan markverðir Þýskalands, Andreas Wolff og Johannes Bitter, náðu sér engan veginn á strik og vörðu aðeins samtals fjögur skot.