Cuomo er sagður hafa áreitt að minnsta kosti ellefu konur kynferðislega í skýrslu rannsakenda dómsmálaráðherra New York-ríkis sem var gerð opinber í dag. Hann neitar ásökununum og hefur fram að þessu þverneitað að segja af sér.
Biden sagði fréttamönnum í dag að hann teldi rétt að Cuomo segði af sér. Áður höfðu Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, og Chuck Schumer, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, hvatt Cuomo til þess.
Fari Cuomo ekki sjálfviljugur gæti ríkisþing New York sparkað honum úr stóli á næstunni. Þingið hefur undanfarið unnið að kærum vegna embættisbrots á hendur ríkisstjóranum og er sú vinna nú sögð langt komin. Carl Heastie, forseti neðri deildar ríkisþingsins, segir Cuomo ekki sætt í embætti og að hann hyggist ljúka rannsókn á embættisbrotum ríkisstjórans fljótt.
Konurnar sem Cuomo er sakaður um að hafa áreitt unnu bæði innan og utan ríkisstjórnar hans. Þær lýstu því hvernig ríkisstjórinn þuklaði á þeim, kyssti þær og talaði um útlit þeirra og kynlíf við þær. Í einu tilfelli hafi starfslið Cuomo beitt sér til að rýra trúverðugleika fyrrverandi starfsmanns sem sakaði hann um áreitni.