Fótbolti

Hollendingar hóa í Van Gaal í þriðja sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Louis van Gaal er mættur aftur í þjálfun.
Louis van Gaal er mættur aftur í þjálfun. getty/VI Images

Louis van Gaal hefur verið ráðinn þjálfari hollenska karlalandsliðsins í fótbolta. Hann gerði samning við hollenska knattspyrnusambandið fram yfir HM í Katar á næsta ári.

Þetta er í þriðja sinn sem Van Gaal þjálfar hollenska landsliðið. Hann stýrði því fyrst á árunum 2000-02 en mistókst að koma því á HM 2002. 

Van Gaal tók aftur við hollenska liðinu 2012 og undir hans stjórn vann það brons á HM 2014. Eftir heimsmeistaramótið hætti hann sem landsliðsþjálfari og tók við Manchester United. Van Gaal stýrði United í tvö ár en hefur ekki þjálfað síðan.

Van Gaal, sem verður sjötugur á sunnudaginn, tekur við hollenska liðinu af Frank de Boer. Hann var látinn fara eftir að Holland féll úr leik í sextán liða úrslitum á EM.

Fyrsti leikur hollenska liðsins undir stjórn Van Gaals er gegn Noregi í undankeppni HM 1. september. Hollendingar eru í 2. sæti G-riðils undankeppninnar með sex stig eftir þrjá leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×