Viðskipti innlent

Ernst & Young velur Guðmund Fertram einn af frumkvöðlum ársins

Árni Sæberg skrifar
Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis.
Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis. Kerecis

Ernst & Young í Bandaríkjunum hefur útnefnt Guðmund Fertram Sigurjónsson, forstjóra Kerecis, sem einn af ellefu frumkvöðlum ársins 2021 í Mið-Atlantshafsflokknum. Verðlaunin eru á meðal þeirra stærstu sem í boði eru fyrir frumkvöðlastörf.

Í tilkynningu frá Kerecis segir að verðlaunin séu viðurkenning til framúrskarandi frumkvöðla fyrir leiðtogahæfni, árangur í rekstri, samfélagsábyrgð og uppbyggingu fyrirtækja. Guðmundur Fertram var valinn af óháðri nefnd sem tilkynnti niðurstöðuna í vikunni sem er að líða. 

„Verðlaunin eru viðurkenning á tækninni okkar og hversu vel hún nýtist alvarlega slösuðum og þeim sem þjást af þrálátum sárum“ segir Guðmundur í tilkynningu.

 „Ég er afskaplega þakklátur þeim sem slógust í hópinn við stofnun fyrirtækisins, vísindaráðinu okkar, fjárfestum, Fanneyju eiginkonu minni og öllum í Kerecis – heiðurinn er auðvitað þeirra allra! Þetta er frábær dagur fyrir Kerecis og þær þúsundir sjúklinga sem verið er að meðhöndla um allan heim með sáraroðinu í dag,“ segir Guðmundur.

Ernst & Young hefur veitt verðlaunin síðastliðin 35 ár. Með útnefningunni verður Guðmundur Fertram meðlimur hóps virtra frumkvöðla sem hafa unnið til verðlauna Ernst & Young.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×