Fækkaði atvinnulausum körlum um 966 frá júnílokum og atvinnulausum konum um 813. Af þeim 1.779 atvinnulausu sem fækkaði á atvinnuleysisskrá í júlí fóru um 700 á ráðningarstyrk.
Atvinnuleysi var 9,1 prósent í maí, 10,4 prósent í apríl, 11,0 prósent í mars og 11,4 prósent í febrúar 2021. Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum í júlí eða 10,9 prósent en var 13,7 prósent í júní. Næst mest var atvinnuleysið 6,7 prósent á höfuðborgarsvæðinu og lækkaði úr 7,9 prósent.
Þetta kemur fram í nýrri vinnumarkaðsskýrslu Vinnumálastofnunar. Stofnunin spáir því að atvinnuleysi minnki áfram í ágúst, meðal annars vegna sérstakra atvinnuátaka stjórnvalda og aukinna umsvifa og verði á bilinu 5,3 prósent til 5,7 prósent.

Mikil fjölgun í fjölda langtímaatvinnulausra milli ára
Alls hafði 5.361 atvinnuleitandi verið án atvinnu í meira en tólf mánuði í lok júlí og fækkaði um 457 frá júní. Þeir voru 2.854 í júlílok 2020. Gera má ráð fyrir því að fjöldi þeirra sem hafa verið án atvinnu í yfir 12 mánuði muni fara minnkandi næstu mánuði.
Alls voru 4.932 erlendir atvinnuleitendur án atvinnu í lok júlí og fækkaði um 772 frá júní. Atvinnulausum fækkaði í öllum atvinnugreinum í júlí 2021 frá mánuðinum á undan, mest í ferðatengdri starfsemi á borð við ferðaþjónustu, gistiþjónustu og farþegaflutningum, eða á bilinu 22 prósent til 25 prósent.
Einnig fækkaði atvinnulausum talsvert í menningartengdri starfsemi eða um 14 prósent milli mánaða. Í öðrum atvinnugreinum var fækkun atvinnulausra á bilinu 6 til 15 prósent. Í verslun og byggingariðnaði fækkaði atvinnulausum frá júní um tæp 10 prósent.
Fréttin hefur verið uppfærð.