Fótbolti

Messi veifaði til stuðningsmannanna í París og allt varð vitlaust

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi veifar stuðningsfólki París Saint Germain í París í dag.
Lionel Messi veifar stuðningsfólki París Saint Germain í París í dag. AP/Francois Mori

Lionel Messi er kominn til Parísar til að ganga frá sínum málum og verður hann kynntur formlega sem nýr leikmaður Paris Saint Germain liðsins í fyrramálið.

Messi og PSG munu þá halda blaðamannafund og orðrómur hefur verið um að hann verði haldinn við Eiffel turninn. Eitt er víst að þá munum við sjá argentínska snillinginn í PSG búningi í fyrsta sinn.

Það verður kannski fyrst þá sem fótboltáhugafólk áttar sig á því að Messi muni ekki spila með Barcelona í vetur heldur með ríkasta fótboltafélagi heims.

Stuðningsmenn PSG hafa beðið þolinmóður fyrir utan höfuðstöðvar félagsins eftir því að sjá Messi.

Messi opnaði glugga áðan og veifaði til stuðningsmannanna í París og allt varð vitlaust. Sky birti myndbandið sem má sjá hér fyrir neðan.

Paris Saint Germain varð í öðru sæti í frönsku deildinni á síðasta tímabili og datt út í undanúrslitum Meistaradeildarinnar eftir að hafa tapað úrslitaleiknum tímabilið á undan.

Nú hefur liðið safnað af sér stjörnuleikmönnum á frjálsri sölu og enginn þeirra er stærri en Lionel Messi.

Það er ekki nema von að stuðningsmenn Parísarliðsins missi sig og klípi sig um leið þegar þau sjá Messi í Parísartreyju og fyrir framan sig í París. Kóngurinn er mættur og nú verður erfitt fyrir önnur lið í Evrópu að koma í veg fyrir fyrsta sigur PSG í Meistaradeildinni.

Stuðningsmenn Paris Saint-Germain fagna fyrir framan höfuðstöðvar PSG þar sem Messi veifaði til þeirra áðan.AP/Francois Mori



Fleiri fréttir

Sjá meira


×