Viðskipti innlent

Signý Sif tekur við af Sigfúsi hjá Eyri Invest

Atli Ísleifsson skrifar
Signý Sif Sigurðardóttir og Sigfús Oddsson.
Signý Sif Sigurðardóttir og Sigfús Oddsson. Eyrir Invest

Signý Sif Sigurðardóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri fjármögnunar hjá Eyri Invest hf. Sigfús Oddsson, sem sinnt hefur starfinu frá 2011 hefur ákveðið að láta af störfum.

Frá þessu segir í tilkynningu frá Eyri Invest. Fram kemur að Signý sé með MS gráðu í aðgerðarannsóknum frá Columbia háskóla í New York og hafi starfað hjá Landsvirkjun síðustu sex ár, síðast sem forstöðumaður fjárstýringar.

„Sem forstöðumaður bar hún m.a. ábyrgð á fjármögnun og fjárhagslegri áhættustýringu Landsvirkjunar. Þá var Signý einnig í fararbroddi í útgáfu grænna skuldabréfa Landsvirkjunar, sem var fyrsti útgefandi slíkra skuldabréfa á Íslandi.

Signý mun hefja störf í lok ágúst,“ segir í tilkynningunni.

Hrund og Stefán Árni ný inn

Ennfremur segir frá því að á aðalfundi Eyris Invest hafi Hrund Gunnsteinsdóttir og Stefán Árni Auðólfsson komið ný inn í stjórn.

„Hrund er framkvæmdastjóri Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð og sjálfbærni. Hún er jafnframt ein af stofnendum Nordic Circular Hotspot sem stuðlar að framgangi hringrásarhagkerfisins á Norðurlöndunum. Stefán Árni er meðeigandi á lögfræðistofunni LMG og hefur setið í stjórnum nokkurra skráðra hlutafélaga á Íslandi.

Eyrir Invest hf. er fjárfestingarfélag í eigu fagfjárfesta og einstaklinga. Eyrir er stærsti hluthafi Marel hf. en á auk þess kjölfestuhlut í Eyri Sprotum og Eyri Vexti sem fjárfesta í sprota- og vaxtarfyrirtækjum. Þeim sjóðum er stýrt af Eyri Venture Management sem er dótturfélag Eyris Invest.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×