Skoðun

Að skjóta sendiboðann – svar við MAST

Elvar Örn Friðriksson skrifar

Undanfarna daga hefur mikil umræða átt sér stað um það hroðalega myndefni sem kajakræðarinn og náttúruverndarsinninn Veiga Grétarsdóttir tók nýverið upp í íslenskum sjókvíum. Á myndunum má sjá mikið skaddaða hálf-hauslausa laxa, laxa þakta í sárum og augnalaus hrognkelsi.

5 dögum eftir að myndefnið birtist sendi Matvælastofnun (MAST) loks frá sér viðbrögð og birtust þau í frétt á Bæjarins bestu, bb.is á Ísafirði. MAST er sú stofnun sem sér um eftirlit með sjókvíaeldi. Í svari sínu minnist MAST ekkert á ástand fiskanna eða hvort að stofnuninni þyki í lagi að svona viðgangist í íslensku sjókvíaeldi. Einungis er hlaupið undir bagga með sjókvíaeldisfyrirtækjunum og Veiga sökuð um brot á sóttvarnarreglum. Í stað þess að rannsaka hvað hefur farið úrskeiðis og hvort allt sé með feldu í sjókvíunum, þá ákveður stofnunin að fara í fjölmiðla og gagnrýna konuna sem var svo hugrökk að þora að sýna Íslendingum það sem leynist undir yfirborðinu.

Viðbrögð sjókvíaeldisfyrirtækjanna hafa verið að efast um að myndefnið væri úr þeirra kvíum; og til vara að það ástand laxanna sem sást á myndunum sé algjör undantekning og að Veiga sé að gerast brotleg með því að sýna hvað leynist í kvíunum þeirra. Eins og fram hefur komið í fréttum hafa meira en 1.350.000 eldislaxar drepist í íslenskum sjókvíum á þessu ári. Rétta orðið um þann fjölda er ekki undantekning.

Viðbrögð af þessu tagi kallast að skjóta sendiboðann.

Væri ekki nær að líta í eigin barm, taka ábyrgð á gjörðum sínum og bera virðingu fyrir íslenskri náttúru, eldislaxi jafnt sem villtum íslenskum laxi? Myndirnar eru ótvíræður vitnisburður um að sjókvíaeldi á laxi er ótæk aðferð við dýrahald og matvælaframleiðslu. Stjórnvöldum ber skylda til að vinda ofan af þeirri starfsemi sem fyrst og beina öllu fiskeldi í lokuð kerfi.

Höfundur er framkvæmdastjóri Verndarsjóðs Villtra Laxastofna (NASF).




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×