Líkt og Vísir sagði frá fyrr í kvöld varð það ljóst í dag að það sem áður var talið vera gat í stóra gígbarminum er í raun sjálfstætt gosop. Þar flæðir nú hraunið upp um hið litla op.
Bent er á það á Facebook-síðu Eldfjalla- og náttúruvárhóp Suðurlands að hraunstrýtan hafi vaxið hratt í dag en eins og sjá má á vefmyndavél Vísis er hún nú orðin örlítið hærri en gígbarmur aðalgígsins.
„Strýtan er jafnframt orðin nokkuð brött og ætti ekki að koma á óvart ef hún hrynur niður, líkt og gerðist reglulega í upphafi eldsumbrotana,“ segir í færslu hópsins.
Horfa má á beina útsendingu Vísis frá gosstöðvunum hér að neðan.