Erlent

Mynd sýnir þétt­pakkaða her­flutninga­vél sem flaug á brott með hátt í sjö hundruð í einu frá Afgan­istan

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Flugvél sambærileg þeirri sem flaug með 640 Afgani frá Afganistan á einu bretti.
Flugvél sambærileg þeirri sem flaug með 640 Afgani frá Afganistan á einu bretti. (U.S. Air Force photo/Tech. Sgt. Shane A. Cuomo)

Talið er að 640 Afganir hafi komist frá Afganistan á einu bretti um borð í C-17 herflutningavél bandaríska flughersins í gær. Flugmenn vélarinnar tóku þá ákvörðun að taka á loft frekar en að reyna að koma flóttamönnunum úr vélinni sem höfðu skömmu áður fyllt vélina í örvæntingarfullri tilraun til þess að komast burt frá Afganistan.

Varnarmálavefurinn Defense One hefur birt mynd, sem sjá má hér að neðan, sem sýnir hversu þéttpökkuð flugvélin, sem alla jafna er nokkuð rúmgóð, var. Í fyrstu var talið að um átta hundruð manns hefðu troðið sér um borð en heimildarmenn Defense One innan stjórnkerfis Bandaríkjanna segja að 640 Afganir hafi verið taldir út úr vélinni á áfangastað.

Mikil örvænting hefur gripið um sig í Afganistan eftir að Talibanar tóku völdin þar í gær, þegar höfuðborgin Kabúl féll. Margir óttast um örlög sín og hefur flugvöllurinn í Kabúl verið þéttsetinn þar sem fjölmargir hafa reynst að komast um borð í þær flugvélar sem koma nú starfsliði alþjóðastofnana og sendiráða, auk annarra, á brott. Sýna myndir á samfélagsmiðlum meðal annars örvæntingarfullar tilraunir til þess að komast um borð í slíkar vélar.

Svo virðist sem að það sé það sem gerst hafi þegar C-17 flugvélin varð yfirfull af Afgönum samkvæmt vef Defense One. Hefur vefurinn eftir heimildarmönnum sínum að tekin hafi verið ákvörðun um að taka á loft í stað þess að reyna að koma flóttamönnunum úr vélinni.

C-17 vélar eru gríðarstórar. Lengd þeirra er 53 metrar, vænghaf 51,75 metrar og stélhæð 16,8 metrar. Tóm vegur vélin um 128 tonn en hámarksþyngd við flugtak rúm 265 tonn. Þess má geta að vél af þessari tegund flaug með hvalinn Keikó til Vestmannaeyja árið 1998.


Tengdar fréttir

Varði á­kvörðunina og skellti skuldinni á ráða­mennina sem flúðu

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, varði ákvörðun sína um að draga bandarískt herlið frá Afganistan er hann ávarpaði bandarísku þjóðina í kvöld. Hann segist standa við ákvörðunina en viðurkennir að Talibanar hafi náð völdum hraðar en gert hafði verið ráð fyrir. Það sé hins vegar ráðamönnum í Afganistan að kenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×