Sport

Kveikti enn meira í Söru að mæta á heimsleikana sem áhorfandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara ræðir málin við Justin LoFranco hjá Morning Chalk Up vefnum.
Sara ræðir málin við Justin LoFranco hjá Morning Chalk Up vefnum. Skjámynd/IG/morningchalkup

Sara Sigmundsdóttir var á heimsleikunum í CrossFit á dögunum en þó ekki sem keppandi. Sú reynsla hafði mikið áhrif á okkar konu.

Sara fór í viðtal hjá Morning Chalk Up vefnum þegar hún var út í Madison og ræddi þar ýmsa hluti við Justin LoFranco stofnanda og aðalmanninn á vefsíðunni vinsælu.

LoFranco spurði Söru auðvitað út í reynsluna af því að mæta á leikana sem áhorfandi.

„Þetta hefur verið mjög erfitt. Ég viðurkenni það. Þú vilt vera á keppnisgólfinu og þú vilt vera íþróttamaðurinn,“ sagði Sara Sigmundsdóttir.

„Einhver sagði við mig: Njóttu þess bara að vera hér drottningin sem þú ert. Ég svaraði: Ég vil ekki njóta þess. Ég vil verða íþróttamaður, ég vil verða á keppnisgólfinu og ég vil berjast við þessar stelpur. Þar á ég heima,“ sagði Sara.

„Það kveikti enn meira í mér að mæta hingað og ég vil nú eiga fjandakornið bestu endurkomu allra tíma,“ sagði Sara.

„Mjög margir íþróttamenn lenda í svona öldugangi. Það gengur vel hjá þeim og svo lenda þeir allt í einu í miklu mótlæti. Það fer eftir þú hvernig þeir bregðast við þessu mótlæti sem sýnir hversu miklu sigurvegarar þeir geta orðið,“ sagði Sara.

„Ég er að segja þetta við mig sjálfa. Ég þarf að nota þessa innri orku sem ég er búin að safna upp til að keyra almennilega á þetta þegar ég má fara aftur af stað,“ sagði Sara.

Það má sjá þetta brot úr spjalli þeirra hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×