Fótbolti

Mourinho búinn að fá Tammy Abraham til Rómar og hringnum lokað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tammy Abraham verður í treyju númer níu hjá AS Roma liðinu.
Tammy Abraham verður í treyju númer níu hjá AS Roma liðinu. Getty/Fabio Rossi

Ítalska félagið Roma hefur keypt framherjann Tammy Abraham frá Chelsea.

Roma borgar enska félaginu 34 milljónir punda fyrir þennan 23 ára gamla sóknarmann sem hefur skorað 30 mörk í 72 leikjum fyrir Chelsea.

34 milljónir punda eru um 5,9 milljarðar íslenskra króna og rétt rúmlega þriðjungur af því sem Chelsea borgaði fyrir Romelo Lukaku á dögunum.

Þar með er hringnum lokað. Chelsea keypti Romelo Lukaku frá Inter Milan. Inter keypti þá Edin Dzeko frá Roma sem að lokum keypti Abraham frá Chelsea.

Tammy Abraham er uppalinn hjá Chelsea og kom fyrst inn í aðallið félagsins árið 2016 þegar Guus Hiddink var stjóri.

Abraham fór síðan þrisvar á láni, til Bristol City (2016-17), Swansea City (2017-18) og Aston Villa (2018-19) áður en hann fékk sitt fyrsta alvöru tækifæri hjá Chelsea undir stjórn Frank Lampard.

Abraham skoraði 18 mörk í 47 leikjum 2019-20 tímabilið en aðeins 12 mörk í 32 leikjum á síðustu leiktíð. Hann var ekki inn í myndinni hjá Thomas Tuchel.

Abraham mun því spila fyrir Jose Mourinho í vetur sem tók vel á móti honum í Róm eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×