Fótbolti

Amanda lagði upp í stórsigri og Blikar mæta heimakonum

Sindri Sverrisson skrifar
Ingibjörg Sigurðardóttir, þriðja frá hægri í efri röð, var að vanda í byrjunarliði Vålerenga í dag.
Ingibjörg Sigurðardóttir, þriðja frá hægri í efri röð, var að vanda í byrjunarliði Vålerenga í dag. Twitter/@VIFDamer

Amanda Andradóttir lagði upp eitt af mörkum Vålerenga og Ingibjörg Sigurðardóttir stóð vaktina í vörn liðsins þegar það sló út Mitrovica í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í dag.

Vålerenga vann leikinn 5-0 og skoraði varamaðurinn Elise Thorsnes þrennu í leiknum en Janni Thomsen fyrstu tvö mörkin. Amanda, sem kom inn á sem varamaður á 61. mínútu, lagði upp síðasta markið með frábærri sendingu yfir vörn Mitrovica. Ingibjörg lék allan leikinn.

Vålerenga mætir því heimakonum í PAOK frá Grikklandi í úrslitaleik á laugardaginn um að komast í seinni umferð undankeppninnar.

Ljóst hverjum Blikar mæta á laugardag

Íslandsmeistarar Breiðabliks spila einnig úrslitaleik á laugardaginn, gegn heimaliði Gintra í Litháen. Blikakonur unnu stórsigur á KÍ Klaksvík í Litháen í dag og Gintra var svo að vinna Flora frá Eistlandi, 2-0.

Í þessari nýju útgáfu Meistaradeildar Evrópu þurfa lið að komast í gegnum 1. og 2. stig undankeppni til að komast í aðalkeppnina. Vinni Blikakonur lið Gintra leika þær á seinna stigi undankeppninnar um næstu mánaðamót (tveggja leikja einvígi 31. ág./1. sept. og 8./9. sept.)

Í aðalkeppninni leika sextán bestu lið Evrópu, í fjórum fjögurra liða riðlum, frá október og fram í desember. Útsláttarkeppni átta bestu liðanna hefst svo í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×