Viðskipti innlent

Þjóðar­öryggis­ráð fundað fjórum sinnum vegna stöðunnar á greiðslu­miðlunar­markaði

Atli Ísleifsson skrifar
Miklar sviptingar hafa verið á íslenskum greiðslumiðlunarmarkaði síðustu misserin.
Miklar sviptingar hafa verið á íslenskum greiðslumiðlunarmarkaði síðustu misserin. Getty

Þjóðaröryggisráð hefur fundað fjórum sinnum vegna þeirrar ógnar sem kann að steðja að efnahagslífi landsins að greiðslumiðlunarkerfi séu nú allar í eigu erlendra aðila og lúta ekki að íslenskri lögsögu að fullu. Unnið er að þróun innlendrar greiðslulausnar.

Þetta staðfestir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið. Katrín segir að Seðlabankinn hafi bent á málið árið 2019 og gert fjármálaráðuneytinu viðvart.

Stöðuna sem uppi er má rekja til þess að Borgun, sem áður var í meirihlutaeigu Íslandsbanka, hafi verið selt til alþjóðlega greiðslumiðlunarfyrirtækisins SaltPay á síðasta ári. Þá hafi Valitor verið selt til ísraelska greiðslumiðlunarfyrirtækisins Rapyd, en félagið var áður í eigu Arion banka. Síðasta sumar var svo einnig gengið frá kaupum Rapyd á Korta.

Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri segir í samtali við blaðið að þar sé unnið í samstarfi við Reiknistofu bankanna að þróun nýrrar innlendrar greiðslulausnar sem verði óháð erlendri íhlutun. Í síðari stigum þróunar verði svo einnig unnið með „kerfislæga mikilvægum bönkum hér innanlands“, að því er fram kemur í máli Gunnars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×