Þetta er á meðal þess sem kemur fram í pistli sem Tómas birti á Facebook í kvöld. Ætla má að þar sé hann að vitna í nýlegt viðtal Morgunblaðsins við Björn Zoëga, fyrrverandi forstjóra Landspítalans og núverandi forstjóra Karólínska háskólasjúkrahússins í Stokkhólmi. Viðtalinu var slegið upp með fyrirsögninni: „Sagði upp 400 læknum og sjúkraliðum“. Þar kom einnig fram að þrátt fyrir þetta hafi framleiðsla á spítalanum aukist, auk ýmissa annarra jákvæðra áhrifa.
Segir Tómas að verið sé að tala niður hversu erfið fjórða bylgjan sé, á sama tíma og gagnrýni á Landspítalann og sóttvarnalækni sé básúnuð. Segir Tómas að staðan á Landspítalanum sé erfið.

„Það er verið að ausa skútuna í þessum töluðu orðum. Í dag lögðust tveir sjúklingar til viðbótar með Covid á gjörgæslu. Þeir eru því 6 talsins - sem er gríðarlega mikið í ekki fjölmennara landi en okkar - hvort sem gjörgæslurými eru 10, 15 eða 20 talsins. Vandinn væri enn stærri ef ekki hefðu verið sendir gjörgæslusjúklingar í öndunarvél með sjúkraflugi erlendis - og norður á Akureyri. Loks hefur verið skrúfað niður í stærri skurðaðgerðum - eitthvað sem allir sjá að gengur ekki til lengdar. Starfsfólk er kallað inn úr sumafríi, aðrir mæta sjálfviljugir af einkastofum og allir bæta á sig endalausum aukavöktum,“ skrifar Tómas.
Segir Tómas að við þessar aðstæður sé það fáránlegt að að berja sífellt í bumbur rekstrarvanda og vísa til óstjórnar á spítalanum, um sé að ræða órökstuddar fullyrðingar sem Tómas telur lykta af kosningapopúlisma.
„Á leku skipi er ekki fækkað í áhöfn. Í staðinn hjálpast allir að - bæði skipverjar og farþegar - og ausa botninn svo skipið haldist á floti. Hetjuviðtöl af niðurskurði erlendis eru því illa tímasett og bara til þess að auka á gremju - bæði innanhúss sem utan. Nú þurfa allir að halda fókus - líka þeir sem halda um penna á stóru fjölmiðlum landsins. Enda árangursríkara í ólgusjó að róa í sömu átt.“