Innlent

Tekur ekki í mál að kenna frammi á gangi

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Halla kennir börnum í þriðja bekk í Fossvogsskóla.
Halla kennir börnum í þriðja bekk í Fossvogsskóla. facebook

Kennari í þriðja bekk í Foss­vogs­skóla tekur það ekki í mál að kenna börnum frammi á gangi í tengi­byggingu Víkings­heimilisins. Hún kveðst þó meira en til­búin til að kenna í hús­næði Hjálp­ræðis­hersins, sem bauð Reykja­víkur­borg af­not af byggingunni undir skóla­starfið í dag, og er bjartsýn á næstu vikur.

„Ég er búin að skoða það sjálf og mér líst gríðar­lega vel á það,“ segir Halla Gunnars­dóttir, sem kennir þriðja bekk í Foss­vogs­skóla.

Eins og fjallað hefur verið um á Vísi og Stöð 2 síðustu daga á kennsla barna í 2. til 4. bekk skólans að fara fram í gámum á skóla­lóðinni þetta haustið. Þeir verða hins vegar ekki til­búnir fyrr en eftir nokkrar vikur þó skólinn hefjist næsta mánu­dag.

Í staðinn vildi Reykja­víkur­borg að börnunum yrði kennt í að­stöðu sem í­þrótta­fé­lagið Víkingur bauð fram; annars vegar í sal í fé­lags­heimili þess, Ber­serkja­salnum, og hins vegar frammi á gangi í tengi­byggingu hússins. 2. bekkur átti að fá kennslu í Ber­serkja­salnum en 3. og 4. bekkur á ganginum.

Vonar að foreldrar velji Hjálpræðisherinn

Halla kveðst ekki myndu taka það í mál að kenna börnunum í að­stöðunni á ganginum.

„Nei, hún er alveg af og frá og ég per­sónu­lega tók það ekki í mál,“ segir hún. „Ég var ekki til­búin til þess að leggja það á mig og mína nem­endur. Alls ekki.“

Reykja­víkur­borg sendi könnun á for­eldra í dag þar sem þeir voru boðnir þessir þrír kostir í stöðunni:

  1. Að halda sig við stað­­setninguna í Foss­vogs­dalnum þar sem 2. til 4. bekk verður kennt í Víkings­heimilinu fyrstu vikurnar, 2. bekkur í svo­kölluðum Ber­­serkja­­sal en 3. til 4. bekk á ganginum.
  2. Að 2. bekk yrði kennt Ber­­serkja­­salnum á jarð­hæð Víkings­heimilisins og að 3. og 4. bekkur fari með rútu í Korpu­­skóla.
  3. Að skóla­­starf 2. til 4. bekkjar fari fram í nýju hús­­næði Hjálp­ræðis­hersins við Suður­lands­braut. Börnin myndu þá fara með rútu þangað og til baka frá Foss­vogs­­skóla.

For­eldrarnir hafa fram til há­degis á morgun til að svara könnuninni. Halla vonar inni­lega að síðasti kosturinn verði fyrir valinu.

„Þetta er alveg ó­trú­lega flott hús. Glæ­nýtt sem er nú heldur betur gott fyrir okkar fólk, að koma í heil­næmt nýtt hús­næði. Það eru veik börn í þessum hópi,“ segir hún og á þá við eftir myglu sem fannst í Foss­vogs­skóla árið 2019. Það var upp­hafið af löngum hús­næðis­vanda skólans, sem er engan vegið lokið enn.

„Vonandi leysist þetta allt saman,“ segir Halla. „Ég er von­góð og bjart­sýn núna út af þessari nýju að­stöðu. Ef að hún verður fyrir valinu treysti ég mér alveg til að takast á við komandi vetur, eða vikur… maður veit ekki hvað þetta tekur langan tíma. Það kemur í ljós.“

Hún segir að þeir for­eldrar sem hún hafi heyrt í hljómi já­kvæðir fyrir hús­næði Hjálp­ræðis­hersins. Þeir verði þó að treysta á hennar frá­sagnir af því enda ekki séð það sjálfir.

Skrýtin að­ferða­fræði borgarinnar

Og þeir virðast sumir heldur ó­sáttir við þá stað­reynd. Agnar Freyr Helga­son, annar full­trúa for­eldra í skóla­ráði Foss­vogs­skóla, var heldur undrandi yfir könnun Reykja­víkur­borgar fyrir for­eldrana í dag:

„Það er mjög skrýtin að­ferða­fræði hjá Reykja­víkur­borg að gefa for­eldrum 19 klukku­tíma til að svara ein­hverri skoðunar­könnum um val­kosti sem þeir vita í rauninni ekkert um,“ sagði Agnar.

Agnar Freyr Helgason, fulltrúi foreldra í skólaráði Fossvogsskóla.Vísir/Sigurjón

„Þarna er verið að láta for­eldra bera á­byrgðina á því hvert verður farið á meðan þeir vita í rauninni ekkert um til dæmis hús­næði Hjálp­ræðis­hersins nema bara heimilis­fangið.“


Tengdar fréttir

Lélegast að borgin hafi ekki haft nógu góðan verkferil í myglumálum

Alexandra Briem, forseti borgarstjórnar, segist skilja reiði foreldra í Fossvogsskóla með ráðstafanir borgaryfirvalda þegar kemur að því að koma börnunum fyrir. Hart hefur verið deilt á að til standi að nota Víkingsheimilið til kennslu, sem mörgum þykir óviðunandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×