Fótbolti

Andri Fannar í danska stórveldið

Sindri Sverrisson skrifar
Andri Fannar Baldursson með treyju FCK.
Andri Fannar Baldursson með treyju FCK. fck.dk

Landsliðsmaðurinn ungi Andri Fannar Baldursson er genginn í raðir danska stórliðsins FC Köbenhavn. Hann kemur til félagsins að láni frá Bologna á Ítalíu.

Lánssamningurinn gildir til loka leiktíðarinnar í dönsku úrvalsdeildinni, eða fram á næsta sumar, og FCK á svo rétt á að kaupa Andra í lok lánsdvalarinnar, kjósi félagið svo.

Andri Fannar er 19 ára gamall knattspyrnumaður sem ólst upp hjá Breiðabliki en fór til Bologna í ársbyrjun 2019. Hann hefur komið við sögu í 15 leikjum í ítölsku A-deildinni.

Andri Fannar lék sinn fyrsta A-landsleik fyrir tæpu ári síðan og á alls að baki fjóra A-landsleiki eftir að hafa komið við sögu í öllum þremur vináttulandsleikjum Íslands fyrr í sumar. Hann á að baki 39 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

FCK hefur 13 sinnum orðið danskur meistari, síðast árið 2019, en liðið hafnaði í 3. sæti á síðustu leiktíð. Eftir sex umferðir í ár er liðið án taps í 2. sæti, stigi á eftir toppliði Midtjylland.

„Það fer afar gott orðspor af FCK og þarna eru þegar ungir Íslendingar sem gæti reynst vel fyrir mig þegar ég kem nýr í félagið,“ segir Andri í viðtali á heimasíðu FCK.

„Ég veit líka að Ragnar Sigurðsson, Sölvi Geir Ottesen, Rúrik Gíslason og fleiri Íslendingar hafa notið sín vel hjá félaginu og gert góða hluti.

Ég hlakka mikið til að spila fyrir þetta stórveldi og legg allt í sölurnar til að grípa tækifærið. Ég hlakka mikið til að hitta liðsfélagana og starfsliðið,“ segir Andri Fannar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×