Þann 16. júní sendi KSÍ frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að Eiður væri kominn í tímabundið leyfi frá starfi sínu sem aðstoðarþjálfari landsliðsins. Jafnframt fékk hann skriflega áminningu frá KSÍ. Þetta kom í kjölfar þess að myndband af Eiði að kasta af sér þvagi að næturlagi í miðborg Reykjavíkur fór í birtingu.
Í yfirlýsingu frá KSÍ og Eiði sagði meðal annars: „Það að vera fyrirmynd þýðir ekki að ég sé fullkominn, ég er mannlegur. Stundum tökum við rangar ákvarðanir, sýnum af okkur dómgreindarleysi og gerum mistök, og þá sérstaklega þegar áfengi spilar inn í. Á lífsleið okkar þurfum við öll að taka á ýmsum persónulegum málum, og ég mun svo sannarlega taka á mínum.“
Að loknum blaðamannafundi KSÍ í dag, þar sem hópur karlalandsliðsins fyrir næstu þrjá leiki þess í undankeppni HM 2022 var tilkynntur, spurði Henry Birgir Gunnarsson Eið út í leyfið og áminninguna sem hann fékk.
„Svo ég vitni nú kannski bara í yfirlýsinguna sem var gefin út á sínum tíma, þá held ég að ég hafi tekið á þeim málum og ég held að KSÍ hafi líka gert það,“ sagði Eiður. „Svo lítum við bara fram á veginn og erum ekkert að horfa of mikið til baka.“
Aðspurður hvort hann vildi segja hvað hann hafi nákvæmlega gert til að taka á sínum málum sagði Eiður: „Nei, ég held að allt sem tekur á í persónulega lífinu, heldur maður bara þar.“
Framundan eru þrír leikir hjá íslenska liðinu á Laugardalsvelli, gegn Rúmeníu 2. september, Norður-Makedóníu 5. september og Þýskalandi 8. september.
Ísland er í fimmta og næstneðsta sæti J-riðils undankeppninnar með þrjú stig eftir þrjá leiki.