Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég er A-manneskja og elska að vakna snemma, yfirleitt klukkan sex. Hef verið svona alla ævi; man þegar ég var í Menntaskólanum á Akureyri og leigði með vinkonum sem sváfu frameftir að þá leiddist mér stundum.
Mér leiðist sko ekki í dag þegar ég vakna á undan öðru heimilisfólki; finn mér alltaf eitthvað að gera. Ég vinn vel á morgnana og ef það er ekki vinnudagur þá fer ég út með hundana okkar tvo, les eða sest með handavinnu og tónlist.
Svo finnst mér líka gott að gera ekkert og að bara njóta kyrrðarinnar. Almennt vakna ég hress og hlakka til dagsins.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
Hefðbundinn dagur byrjar á hundaknúsi því hundarnir okkar, labradorarnir og feðgarnir Mói og Máni gefa mér knús; setja framloppur upp í rúm og knúsa beinlínis, þegar þeir verða varir við að maður rumskar. Þá er að gefa þeim að borða og hleypa þeim aðeins út í garð.
Ég byrja svo almennt daginn á að fara í sturtu og taka mig til; það er fín núvitundaræfing.
Því næst er morgunverður sem ég tek mér oftast góðan tíma í að taka til, elda og njóta, jafnan yfir helstu fréttum. Svo er að taka spjall við eiginmann og annað heimilisfólk þegar það kemur á fætur, nokkru seinna en ég.
Hreyfing bíður oftast seinniparts því ég mæti snemma til vinnu.
Þegar þú vilt aftengja þig alveg frá vinnu og öðru amstri, hvað gerir þú þá?
Það sem er best en talsvert fyrirtæki: að fara upp á hálendi Íslands, þangað sem torfært er og fáir eru, helst þar sem ekki er gsm-samband.
Dvelja þar í tjaldi með eiginmanni og hundum, stundum fylgja aðrir með, skoða umhverfið, elda góðan mat, lesa og bara vera.
Þegar þetta er ekki í boði er þrennt sem er gott að gera:
1. Hvers kyns útivera í fallegri náttúru
2. Að hlusta á klassíska tónlist; gjarnan hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu þar sem ég er fastagestur. Óperuferðir, hérlendis, erlendis og í óperubíó gera algerlega sama gagn.
3. Sýsl heimavið; annað hvort að sitja yfir handavinnu; útsaumi eða prjóni eða gleyma sér við eldamennsku og mat með mínu fólki.
Ný upplifun í sumar voru morgungöngur með tvíburaömmustelpur í vagni í fagurri sveit.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Verkefni landlæknis eru ótrúlega fjölbreytt sbr. lög um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007. Þessa dagana t.d. eftirlit með heilbrigðisþjónustu í fjórðu bylgju COVID-19 þar sem stöðu mála á bæði Landspítala og öðrum heilbrigðisstofnunum er miðlað til heilbrigðisráðherra. Síðan er fjöldi annarra mála, allt frá víðfeðmum málum eins og lýðheilsu til málefna einstaklinga.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Fjöldi mála sem berast til embættis landlæknis vex stöðugt eins og sjá má í ársskýrslu okkar. Þar sem mál á mínu borði eru mörg og fjölbreytt þarf stöðugt að forgangsraða.
Ég tek stöðu mála reglulega; annars vegar í rafrænni málaskrá embættisins og hins vegar frá vikuplani í Outlook.
Svo geri ég nú bara pappírslista í upphafi hvers dags, ég er mikil „lista-kona“ og post-it miðar sjást líka á skrifborðinu. Sum mál er hægt að afgreiða hratt og strax meðan önnur þurfa yfirlegu eða taka marga mánuði. Það er mikilvægt að muna líka eftir stórum málum en sem kannski ekki liggur á og vinna í þeim þegar færi gefst.
Ég hef gott úthald og finnst gaman að vinna; sama hvaða störfum ég hef sinnt.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Þar sem ég vakna snemma að þá sofna ég snemma, svona milli tíu og ellefu. Best er að fara uppí og lesa smá.
Mér líður vel ef ég fæ sjö klukkustunda svefn. Áður svaf ég svona sex og hálfan tíma en eftir að ég las bók Matthew Walker „Why we sleep“ sem fjallar um ótrúlegt mikilvægi svefns og hvernig góður svefn er undirstaða heilsu og vellíðunar, ákvað ég að lengja svefninn um hálfan til einn klukkutíma.
Ég finn alveg mun á mér eftir það. Ég hvet alla til að kynna sér mikilvægi góðs svefns og að setja hann í forgang. Fullorðnir þurfa að sofa sjö til átta klukkustundir og börn og ungmenni lengur. Lýðheilsuvísar embættisins sýna að margir þurfa að huga betur að svefni, ekki síst unga fólkið okkar.“