Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á beiðni ON um flýtimeðferð og verður málið þingfest á mánudag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Kærunefnd útboðsmála úrskurðaði fyrr á þessu ári að útboð fyrir uppsetningu og rekstur hleðslustöðvanna sem ON vann hafi verið ólöglegt þar sem Reykjavíkurborg hafi ekki boðið verkið út á evrópska efnahagssvæðinu. Samkeppnisaðilinn Ísorka kærði niðurstöðu útboðsins. Í kjölfarið var lokað fyrir notkun stöðvanna sem standa víðsvegar við bílastæði í eigu borgarinnar.
Fyrirtækið hefur farið fram að réttaráhrifum niðurstöðunnar verði frestað svo fyrirtækið geti haft hleðslustöðvarnar opnar þangað til niðurstaða dómstólsins liggur fyrir.
Fara ekki fram á bætur
ON hefur nú sent erindi til borgarlögmanns. Að sögn fyrirtækisins er Reykjavíkurborg þar innt eftir því hvort flýtimeðferð dómsmálsins og sú yfirlýsing forráðamanns Ísorku við Fréttablaðið að það sé „alveg Ísorku að meinalausu hvort stöðvarnar fái að þjóna rafbílaeigendum áfram,“ gefi tilefni til að endurmeta stöðuna.
Að sögn ON fer fyrirtækið hvorki fram á bætur né málskostnað í dómsmálinu heldur einungis að niðurstaða kærunefndar útboðsmála verði felld úr gildi. Ekki er hægt að stefna kærunefndinni og því er form dómsmálsins það að kæranda útboðsins, Ísorku og Reykjavíkurborg er stefnt.
Enginn sigurvegari
„Sú staða sem upp kom eftir niðurstöðu kærunefndarinnar var í senn flókin og kolómöguleg,“ segir Kristján Már Atlason, forstöðumaður fyrirtækjamarkaða ON, í tilkynningu.
„Það var enginn sigurvegari en öll töpuðu, ekki síst rafbíleigendur og loftslagið. Við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma þessari þjónustu í gagnið á ný, enda sýndi sig að margir rafbílaeigendur, sem ekki eiga kost á að hlaða heima, treystu á þessa lausn þegar þeir keyptu sér rafmagnsbíl. Við hjá Orku náttúrunnar erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að komast út úr þessari ómögulegu stöðu sem nú er, enda eru orkuskipti í samgöngum fljótlegasta og mikilvægasta framlag okkar til loftslagsmála,“ segir Kristján Már.