Skoðun

Fjár­hags­legt sjálf­stæði eldri borgara

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar

Lífeyrissjóðirnir eru eitt stærsta samfélagslega framlag þeirrar kynslóðar sem hafa lokið góðri starfsævi. Sjóðirnir tryggja afkomu og lífskjör þeirra sem byggt hafa upp lífeyrissparnaðinn. En fram hjá því verður ekki litið að margir áttu þess ekki kost að ávinna sér viðunandi réttindi í lífeyrissjóði. Í upphafi var hlutfall iðngjalda af launum lágt og ekki greitt af heildarlaunum. Margir eldri borgarar náðu heldur ekki að byggja upp réttindi nema á hluta starfsævinnar. Óðaverðbólga hjó stór skörð í lífeyrisréttindi launafólks.

Við okkur blasir því ákveðinn fortíðarvandi sem við verðum að kljást og leiðrétta. Vandann viljum við sjálfstæðismenn leysa með því að breyta fyrirkomulagi ellilífeyris almannatrygginga og taka upp nýtt kerfi þar sem horft er til þess að leiðrétta fortíðarvandann með jöfnun tekna vegna fortíðar og jöfnun tekna vegna samtíma.

Jöfnun tekna

Með jöfnun tekna vegna fortíðar er ætlun okkar að fjármagna sérstaklega lífeyrisréttindi í lífeyrissjóðum til að jafna stöðu ellilífeyrisþega varðandi áunnin réttindi til ellilífeyris úr sjóðunum. Lífeyrisuppbót hvers og eins er föst greiðsla ákveðin fyrir lífstíð sem tekur sömu breytingum og ellilífeyrir úr lífeyrissjóðum.

Jöfnun vegna samtíma yrði framkvæmd með skattfrelsi (neikvæðum tekjuskatti) sem virkar eins og útgreiddur persónuafsláttur. Neikvæður tekjuskattur er mismunandi eftir því hvort einstaklingar eru í sambúð eða einir í heimili. Með neikvæðum tekjuskatti yrðu engar sérstakar skerðingar vegna atvinnutekna aðrar en fram koma í tekjuskattskerfinu og lækkandi neikvæðum tekjuskatti.

Þessar breytingar hefðu veruleg áhrif á afkomu og tekjumöguleika ellilífeyrisþega þar sem endurbætur almannatryggingakerfisins munu skapa raunhæfan hvata til atvinnuþátttöku, auka frelsi og veita eldri borgurum aukinn ábata af lífeyrissparnaði.

Fjárfestum í fólki

Breytingin felur í sér leiðréttingu á kjörum þeirra eldri borgara sem standa verst fjárhagslega. Um leið geta eldri borgarar aukið tekjur sínar og tekið virkari þátt í atvinnulífinu með auknum sveigjanleika.

Samfélagið mun njóta þekkingu þeirra, reynslu og starfsorku lengur og því verður samfélagslegur ábati mikill en kostnaðurinn lítill eða engin þar sem breytingin hefði jákvæð áhrif á ríkissjóð.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×