Platan er hans tíunda og var gefin út á sunnudag eftir mikla bið. West vill ekki aðeins meina að platan hafi verið gefin út án hans samþykkis heldur líka að lag á plötunni, sem tónlistarmennirnir DaBaby og Marilyn Manson sungu inn á, hafi verið tekið út af útgáfufyrirtækinu.
DaBaby var á dögunum harðlega gagnrýndur fyrir að hafa sagt hluti á sviði sem önguðu af hinseginfordómum og karlrembu að mati gagnrýnenda. Honum var í kjölfarið tilkynnt að hann myndi ekki spila á hinum ýmsu tónlistarhátíðum. Þá hefur Marilyn Manson verið í deiglunni undanfarið eftir að fjöldi kvenna sökuðu hann um líkamlegt-, andlegt- og kynferðislegt ofbeldi.
„Universal gaf plötuna mína út án samþykkis míns og kom í veg fyrir að Jail 2 væri á plötunni,“ sagði Kanye um plötuna í gær. Universal hefur ekki svarað þessum ásökunum.
Lagið hefur síðan verið gefið út á streymisveitur og bæði Manson og DaBaby hafa komið fram á hlustunarpartýjum West á Mercedes-Benz leikvanginum í Atlanta, þar sem West hefur flutt lög af plötunni.