Sögur af meintum ofbeldisverkum landsliðsmanna, sem ekki eru í íslenska landsliðshópnum nú, hafa varpað skugga á íslenska karlalandsliðið í fótbolta í kringum leikina þrjá sem liðið spilar nú í undankeppni HM.
Ísland gerði 2-2 jafntefli við Norður-Makedóníu í kvöld, eftir 2-0 tap gegn Rúmeníu á fimmtudag, en törninni lýkur með leik við Þýskaland á miðvikudaginn.
Íslenska liðið átti mjög slakan leik í kvöld, vel fram í seinni hálfleik. Arnar segir að spennustig varamanna sem komu inn á hafi verið rétt stillt en það sama virðist ekki hafa gilt um þá sem hófu leikinn, og að mati Arnars var göngutúrinn fyrr í dag meðal þess sem hafði áhrif á það:
„Við erum ekki búnir að gleyma þessum fyrstu 64 mínútum, þær voru erfiðar fyrir alla,“ sagði Arnar eftir að hafa talað vel um lokakafla Íslands í leiknum.
„Það var ekki tempó, menn ekki að fylla í svæði, ekki að spila vel fram á við og ekki að finna samherja. Hluti af því er ákveðið spennustig, við Eiður [Smári Guðjohnsen, aðstoðarlandsliðsþjálfari] tökum það á okkur,“ sagði Arnar.
„Til að setja hlutina í samhengi varðandi spennustig… Eitt dæmi um hversu erfitt þetta er; að tengja og finna orkuna og þorið og finna stuðninginn og í raun búa til stuðninginn fyrir liðið: Íslenska karlalandsliðið er í göngutúr á leikdegi á heimavelli í Reykjavík og þeir þurfa að sitja undir því að kallað sé á þá: „Nauðgarar! Nauðgarar!“ Ungir drengir og fjölskyldumenn. Þetta er erfitt fyrir marga þessara stráka,“ sagði Arnar á blaðamannafundi í kvöld.
„Ekki misskilja mig, ég er ekki að henda þessari frammistöðu á þetta. Eina sem ég er að segja, er að við verðum sem samfélag að byrja að taka á þessum málum. Við erum ekki að vinna þetta saman, við erum að öskra á hvert annað,“ sagði Arnar og ítrekaði að sér þættu þeir 18-19 ára drengir sem nú eru að stíga fyrstu skref í landsliðinu ættu ekki að þurfa að þola svona köll.
Arnar vildi ekki ræða málið frekar né frá hverjum köllin hefðu komið.