Fótbolti

Þjóðverjar koma fullir sjálfstrausts til Íslands

Valur Páll Eiríksson skrifar
Þjóðverjar gersigruðu Armena í kvöld. Þeir koma á Laugardalsvöll á miðvikudag.
Þjóðverjar gersigruðu Armena í kvöld. Þeir koma á Laugardalsvöll á miðvikudag. Alexander Hassenstein/Getty Images

Þýskaland fór á topp J-riðils í undankeppni HM karla í fótbolta með 6-0 sigri á Armeníu í kvöld. Ísland er í fimmta sæti riðilsins og fær Þjóðverja í heimsókn í næstu umferð.

Armenar voru á toppi riðilsins fyrir kvöldið með tíu stig, en Þjóðverjar voru aðeins með níu eftir óvænt tap fyrir Norður-Makedóníu í mars.

Það var snemma ljóst að þeir þýsku myndu hirða toppsætið af þeim armensku. Serge Gnabry kom Þýskalandi yfir á sjöttu mínútu og tvöfaldaði forskotið með öðru marki á 15. mínútu. Marco Reus og Timo Werner skoruðu þá sitt hvort markið fyrir leikhlé og staðan því 4-0 í hálfleik.

Jonas Hoffman skoraði fimmta mark Þýskalands snemma í síðari hálfleik og Karim Adeyemi innsiglaði 6-0 sigur Þýskalands í uppbótartíma.

Rúmenía fylgdi þá 2-0 sigri sínum á Íslandi á fimmtudag vel eftir með öðrum 2-0 sigri á Liechtenstein í kvöld. Alin Tosca og Cristian Manea skoruðu mörk liðsins í fyrri hálfleik.

Þýskaland er á toppi riðilsins með tólf stig eftir fimm leiki. Armenía er með tíu stig, Rúmenía níu og Norður-Makedónía er með átta. Ísland er í næst neðsta sæti með fjögur stig eftir jafnteflið við þá makedónsku fyrr í dag og Liechtenstein rekur lestina án stiga.

Sjötta umferð riðilsins er leikin á miðvikudag. Þýskaland heimsækir Ísland á Laugardalsvöll klukkan 18:45. Armenía mætir Liechtenstein og Norður-Makedónía liði Rúmeníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×