Fótbolti

Telja 0% líkur á að Ísland komist á HM

Sindri Sverrisson skrifar
Þó að Albert Guðmundsson og félagar í íslenska landsliðinu hafi á endanum náð að krækja í stig gegn Norður-Makedóníu þá er útlitið svart varðandi möguleikana á að komast á HM.
Þó að Albert Guðmundsson og félagar í íslenska landsliðinu hafi á endanum náð að krækja í stig gegn Norður-Makedóníu þá er útlitið svart varðandi möguleikana á að komast á HM. vísir/hulda margrét

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta á enga möguleika á að komast í lokakeppni HM í Katar á næsta ári, samkvæmt spá íþróttatölfræðiveitunnar Gracenote.

Ísland er með fjögur stig eftir fyrri helming undankeppninnar, í 5. sæti síns riðils, og á fyrir höndum afar erfiðan leik við topplið Þýskalands á Laugardalsvelli á miðvikudagskvöld.

Staðan í J-riðli eftir fimm umferðir af tíu: Þýskaland 12, Armenía 10, Rúmenía 9, Norður-Makedónía 8, Ísland 4, Liechtenstein 0.

Efsta lið riðilsins kemst beint á HM en liðið í 2. sæti kemst í umspil.

Samkvæmt mati Gracenote eru engar líkur á því úr þessu að Ísland vinni sinn riðil og aðeins 1% líkur á að liðið endi í 2. sæti og komist í umspil. Heildarlíkurnar á því núna að Ísland komist í lokakeppnina eru hins vegar nær 0 en 1 prósenti.

Ljóst er að útlitið myndi batna mikið ef að Ísland tæki upp á því að vinna Þýskaland á miðvikudaginn. Eftir 2-0 tap gegn Rúmeníu á fimmtudag og 2-2 jafntefli við Norður-Makedóníu á sunnudag, á meðan að Þýskaland vann Liechtenstein 2-0 og Armeníu 6-0 í fyrstu leikjum sínum undir stjórn Hansi Flick, virðist það þó afar fjarlægur draumur.

Ísland á svo eftir heimaleiki við Armeníu og Liechtenstein í október en undankeppninni lýkur í nóvember þegar Ísland sækir Rúmeníu og Norður-Makedóníu heim.

Gracenote telur 81% líkur á að Þýskaland vinni J-riðil, og að líklegast sé að Rúmenía eða Armenía nái 2. sæti og fari í umspil (33% líkur fyrir hvort lið).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×