Erlent

Kína skýtur á Bandaríkin og heitir neyðaraðstoð til handa Afganistan

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fulltrúar talíbana segja Kína mikilvægasta bandamann Afganistan og treysta á kínverska fjárfestingu.
Fulltrúar talíbana segja Kína mikilvægasta bandamann Afganistan og treysta á kínverska fjárfestingu. AP/Rahmat Gul

Stjórnvöld í Kína hafa heitið 4 milljörðum króna í neyðaraðstoð til Afganistan, meðal annars í formi matarbirgða og bóluefna gegn Covid-19. Þá segjast þau reiðubúin til að eiga opið samtal við nýja stjórn talíbana.

Kínversk stjórnvöld segja að myndun bráðabirgðastjórnar í Afganistan hafi verið nauðsynlegt skref í átt að stöðugleika í landinu. Bandaríkjamenn segja hins vegar langan veg í að stjórn talíbana hljóti viðurkenningu sem lögmæt ríkisstjórn Afganistan.

Það var utanríkisráðherrann Wang Yi sem tilkynnti um neyðaraðstoðina á fundi með fullrúum nágrannaríkja Afganistan; Pakistan, Íran Tajikistan, Úsbekistan og Túrkmenistan.

Hann hvatti umrædd ríki til að koma Afganistan til aðstoðar og sagði meðal annars að Kína myndi sjá afgönsku þjóðinni fyrir þremur milljónum skammta af bóluefnum gegn Covid-19.

Kínverskir ráðamenn hafa gagnrýnt Bandaríkin harðlega fyrir framgöngu þeirra í Afganistan og sakað þau um að hafa valdið ringulreið í landinu allt frá því að innrásin hófst þar til þeir yfirgáfu landið.

Fulltrúar talíbana segja Kína mikilvægasta bandamann Afganistan og binda vonir við að kínversk fjárfesting muni hjálpa landinu að rísa upp úr öskustó. Kínversk stjórnvöld hafa fyrir sitt leiti freistað þess að viðhalda góðum samskiptum við talíbana, þrátt fyrir misjafnar skoðanir almennings heima fyrir.

BBC greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×