Skoðun

Mis­munun í kjör­klefanum

Bryndís Snæbjörnsdóttir skrifar

„Mig langar að kjósa en ég get það ekki því ég má ekki velja mér aðstoðarmann til að aðstoða mig í kjörklefanum. Ég hef aldrei getað kosið en samt hef ég mikinn áhuga á stjórnmálum og vil kjósa”.

Eitthvað á þessa leiða hófst samtal sem ég átti við ungan mann með einhverfu fyrir ekki löngu. Viðkomandi getur vegna fötlunar sinnar ekki þegið aðstoð frá hverjum sem er en skv. núgildandi lögum er ætlast til þess að hver og einn kjósi aðstoðarlaust og í einrúmi. Þó er sú undantekning gerð að ef þú sakir sjónleysis eða þess að hönd sé ónothæf þá máttu velja þér þinn eigin aðstoðarmann til að hafa með þér inn í kjörklefann. Þetta þýðir að fólk með þroskahömlun, einhverfu eða skyldar fatlanir, getur ekki fengið aðstoð í kjörklefanum.

Ný kosningalög voru samþykkt á Alþing í vor þar sem skýrt er kveðið á um að kjósandi sem þarf aðstoð inn í kjörklefa geti ráðið því sjálfur hvort hann þyggur aðstoð frá starfsmanni kjörstjórnar eða kemur með sinn eigin aðstoðarmann og tekur á þeirri mismunun sem er á milli hópa fatlaðs fólks, þar sem sumt fatlað fólk má fá aðstoð en annað fatlað fólk ekki. Þetta er mikið framfaraskref og réttlætismál sem loks er komið inn í íslensk lög og þar með búið að útrýma þeirri innbyrgðis mismunun sem fólst í eldri lögum. Þar sem ný kosningalög taka ekki gildi fyrr en 1. janúar 2021 er það því miður svo að í Alþingiskosningunum 25. september n.k. mun einungis hluti þeirra sem þurfa aðstoð í kjörklefanum fá hana, og geta því ekki nýtt lýðræðislegan rétt sinn til að kjósa þrátt fyrir skýran vilja til þess.

Það er mikilvægt að tryggja að fatlað fólk fái besta stuðning sem völ er á til þess að undibúa sig fyrir að kjósa 25. september. Þarna spila aðstandendur sem og starfsfólk sem vinnur fyrir og með fötluðu fólki lykilhlutverk. Þroskahjálp hvetur þessa aðila til þess að aðstoða fatlað fólk sem vill nýta kosningarétt sinn með öllum tiltækum ráðum.

Höfundur er formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar. Greinin er hluti af herferð Landssamtakanna Þroskahjálpar, Ég kýs ekki, sem ætlað er að vekja athygli á hindrunum sem fatlað fólk mætir þegar það kýs.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×