Fótbolti

Agla María: Einhverjar eru spenntar fyrir Barcelona

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Agla María Albertsdóttir skoraði þriðja mark Breiðabliks gegn Osijek.
Agla María Albertsdóttir skoraði þriðja mark Breiðabliks gegn Osijek. vísir/hulda margrét

Agla María Albertsdóttir er spennt fyrir því að spila í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.

Breiðablik vann 3-0 sigur á Osijek frá Króatíu í dag og tryggði sér þar með sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Agla María skoraði eitt mark í leiknum og lagði upp annað.

„Þetta er forréttindastaða, að spila svona lengi og mæta svona góðum liðum. Ég kvarta ekki,“ sagði Agla María við Helenu Ólafsdóttur á Stöð 2 Sport eftir leikinn.

Blikar voru mun sterkari aðilinn í leiknum og sigur þeirra var sanngjarn og öruggur.

„Það var gott að fá mark snemma. Það hjálpaði mikið til. Það var gott hversu agaðar og skipulagðar við vorum í vörninni. Það skilaði sér í dag. Þær þurftu að fara framar og þá opnaðist pláss fyrir okkur,“ sagði Agla María.

Dregið verður í riðla í Meistaradeildinni á mánudaginn og verða mörg stór lið í pottinum.

En á Agla María sér einhverja óskamótherja í riðlakeppninni?

„Ég veit ekki, einhverjar eru spenntar fyrir Barcelona en við tökum öllu,“ svaraði Agla María.

Hún segir að mikil eining og góður liðsandi sé í leikmannahópi Breiðabliks.

„Það er mjög góð stemmning í hópnum og það hefur sýnt sig. Við höfum spilað mjög þétt undanfarið og staðið vel saman og ætlum að klára þetta tímabil með stæl,“ sagði Agla María að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×