Myndin skartar Keanu Reeves og Carrie-Ann Moss sem snúa aftur sem Neo og Trinity en átján ár eru frá því að síðasta Matrix-myndin kom út, The Matrix Revolutions.
Lana Wachowski leikstýrir myndinni en systir hennar Lilly, sem leikstýrði þríleiknum ásamt Lönu, er ekki með í þetta skiptið en hún er í fríi frá kvikmyndaheiminum sem stendur.
Reeves og Moss eru ekki þau einu sem snúa aftur úr þríleiknum. Jada Pinkett Smith, Lambert Wilson og Daniel Bernhardt stíga aftur í sömu stígvél og áður. Laurence Fishburne, sem lék Morpheus er hins vegar ekki með.
Neil Patrick Harris, Christina Ricci, Priyanka Chopra Jonas, Jessica Henwick, Yahya Abdul-Mateen II og Jonathan Goff koma ný inn.
Í stiklunni má sjá Reeves og Moss í hlutverkum Neo og Trinity hittast á ný eftir langt hlé. Stikluna má sjá hér að neðan en myndin verður frumsýnd þann 22. desember næstkomandi.