Erlent

Ný ríkis­stjórn loks tekin við í Líbanon

Atli Ísleifsson skrifar
Michel Aoun forseti og Najib Mikati, nýr forsætisráðherra Líbanons, á fundi fyrr í dag.
Michel Aoun forseti og Najib Mikati, nýr forsætisráðherra Líbanons, á fundi fyrr í dag. AP

Ný ríkisstjórn hefur loks tekið við í Líbanon, um þrettán mánuðum eftir að sú síðasta hrökklaðist frá völdum í kjölfar spreningarinnar miklu í höfuðborginni Beirút í ágúst 2020.

Skrifstofa forseta landsins greindi frá myndun nýrrar ríkisstjórnar í dag eftir fund Najib Mikati, nýs forsætisráðherra, og Michel Aoun forseta.

Najib Mikati, sem er ríkasti maður landsins, hefur áður gegnt embætti forsætisráðherra í tvígang – árið 2005 og svo aftur á árunum 2011 til 2014.

Pattstaða hefur ríkt í líbönskum stjórnmálum síðustu mánuði, en landið hefur glímt við gríðarleg efnahagsvandræði. Gjaldmiðill landsins hefur hrunið, verðbóla og atvinnuleysi er í hæstu hæðum og glíma landsmenn við mikinn vöruskort.

Ríkisstjórn Hassan Diab fór frá skömmu eftir sprenginguna miklu sem orsakaðist af ammoníumnítrati á hafnarsvæðinu í Beirút. Alls fórust 203 í sprengingunni og um sex þúsund særðust, auk þess að tjón á mannvirkjum var gríðarlegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×