Skoðun

Skattar og hið siðaða sam­fé­lag

Drífa Snædal skrifar

Áhrifamestu ákvarðanirnar sem stjórnvöld taka þegar kreppa skellur á eru ekki endilega fyrstu viðbrögð heldur þær ákvarðanir sem teknar eru ári eða tveimur eftir kreppu. Það er þá sem átökin hefjast um hvernig skuli greiða fyrir aukin útgjöld til heilbrigðismála eða velferðarmála og hvernig beri að takast á við tekjufall ríkissjóðs. Þessi átök snerta grunninn í pólitík og fjalla um hvort nota eigi ferðina til að selja ríkiseigur eða hvort standa skuli vörð um velferðarkerfin og styrkja þau.

„Skattar eru gjaldið sem við greiðum fyrir að búa í siðuðu samfélagi,“ sagði bandaríski hæstaréttardómarinn Oliver Wendel Holmes og flest tökum við undir þessa fullyrðingu. Það er svo aftur stöðugt deilumál hverjir eigi að greiða hvaða skatta og fyrir hvaða þjónustu. Við erum þó flest sammála um að þau sem eru frekar aflögufær greiði meira til samfélagsins og að skattkerfið eigi líka að þjóna sem jöfnunartæki.

Í nýrri skýrslu ASÍ um skatta og ójöfnuð kemur fram að mjög miklar glufur eru til staðar í kerfinu okkar. Í reynd er það þannig að því meira sem þú átt, því meiri möguleika hefurðu til að greiða lægri skatta. Margir sem eru í aðstöðu til þess eru stórtækir í að telja fram launatekjur sem fjármagnstekjur og greiða því lægri skatta. Að auki hefur verið dregið úr vægi skattaeftirlits en skattsvik kosta ríkið tugi milljarða ár hvert. Auðlegðarskattur hefur verið afnuminn en hann átti að réttlæta lægri fjármagnstekjuskatt á sínum tíma. Enn eru svo átök hjá okkur um gjald fyrir auðlindanýtingu, hvort sem það er fiskveiði, fiskeldi, framleiðsla raforku eða önnur nýting náttúrunnar.

Það er ekki markmið í sjálfu sér að leggja á hærri skatta en það er skýrt markmið og krafa samtaka launafólks að sterk opinber þjónusta sé fjármögnuð á sanngjarnan hátt. Enginn á að geta sagt sig úr siðuðu samfélagi í krafti auðs síns og eigna sem verða til með sameiginlegum auðlindum og vinnuframlagi launafólks.

Skattamál eru stórmál, sérstaklega þegar kreppir að. Höfum það í huga þegar við greiðum atkvæði í þessum kosningum.

Góða helgi, Drífa.

Höfundur er forseti ASÍ. 




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×