Erlent

Óbólusettir ellefu sinnum líklegri til að deyja

Samúel Karl Ólason skrifar
AP21253766386353
AP/Jae C. Hong

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) segir óbólusetta vera ellefu sinnum líklegri til að deyja vegna Covid-19 en þeir sem hafa verið bólusettir. Þetta kemur fram í nýjum rannsóknum sem stofnunin opinberaði í gær og sýna að bóluefnin draga verulega úr alvarlegum veikindum og koma í veg fyrir dauðsföll.

Í einni rannsókninni var fylgst með rúmlega 600 þúsund manns úr þrettán ríkjum sem smituðust frá apríl til júlí, þegar delta-afbrigði nýju kórónuveirunnar var í töluverðri dreifingu víða um Bandaríkin.

Þar komust vísindamenn að því að óbólusettir voru 4,5 sinnum líklegri til að smitast en fullbólusettir. Þeir voru rúmlega tíu sinnum líklegri til að þurfa á sjúkrahús og ellefu sinnum líklegri til að deyja, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

„Bólusetningar virka,“ sagði Dr. Rochelle Walensky, yfirmaður CDC á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær. Hún sagði einnig að af þeim sem lagðir voru inn á sjúkrahús í júní og júlí voru fjórtán prósent fullbólusettir. Sextán prósent þeirra sem dóu á þessu tímabili voru bólusettir.

Aðrar rannsóknir sem birtar voru í gær benda til þess að dregið hafi úr þeirri vörn sem bólusetningar gefa gegn Covid-19. Í frétt AP segir að enn sé þó óljóst hvort það sé vegna þess að virkni bólusetninga minnki, hvort virkni bóluefna sé verri gegn delta-afbrigðinu eða vegna þess að víða í Bandaríkjunum var dregið úr grímunotkun og öðrum sóttvörnum, samhliða aukinni dreifingu delta-afbrigðisins.

Skikka fólk í bólusetningu

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í gær að skylda ætti alla starfsmenn alríkisstjórnar Bandaríkjanna í bólusetningu og settar yrðu reglur um að allir vinnustaðir þar sem fleiri en hundrað starfa eigi að tryggja bólusetningu starfsmanna sinna eða sjá til þess að þeir séu skimaðir vikulega vegna Covid-19.

Sjá einnig: Ætlar að skylda ríkisstarfsmenn í bólusetningu

Í frétt New York Times segir að bandarískir vísindamenn séu sannfærðir um að tregða margra til að láta bólusetja sig hafi gert faraldur kórónuveirunnar í Bandaríkjunum verri og lengri. Rannsóknirnar sem CDC birti í gær séu vatn á millu þeirra.

Um áttatíu milljónir Bandaríkjamanna hafa neitað að láta bólusetja sig. Kannanir sína mikinn meirihluta Bandaríkjamanna hlynnta því að herða reglurnar varðandi bólusetningar í skólum, sjúkrahúsum og vinnustöðum. Kannanir sína einnig að flestir bólusettir kjósendur kenna óbólusettum og ekki ríkisstjórn Bandaríkjanna um það að faraldur kórónuveirunnar hafi versnað í Bandaríkjunum í sumar.


Tengdar fréttir

Búið að af­létta öllum tak­mörkunum í Dan­mörku

Öllum takmörkunum vegna faraldurs kórónuveirunnar var aflétt í Danmörku á miðnætti. Markar það endalok átján mánaða tímabils samkomutakmarkana í landinu. Ekki er útilokað að skólum í landinu verði lokað fari svo að faraldurinn fari á flug á ný.

Skæð Covid-bylgja leikur óbólu­­setta Búlgara grátt

Neyðarástand vofir yfir heilbrigðiskerfi Búlgaríu þar sem skæð COVID-19 bylgja gengur nú yfir. Bólusetningar hafa gengið afar hægt í landinu þar sem einungis um fimmtungur landsmanna, sem telja 7 milljónir, hafa fengið sprautu og almennra efasemda virðist gæta.

Vilja koma böndum á notkun ormalyfs gegn Covid-19

Heilbrigðissérfræðingar og hópar heilbrigðisstarfsmanna í Bandaríkjunum verja þessa dagana miklu púðri í að reyna að koma í veg fyrir notkun gamals ormalyfs gegn Covid-19. Varað er við því að notkun lyfsins geti valdið skaðlegum hliðarverkunum og lítið sé um sönnunargögn um að lyfið hjálpi raunverulega gegn veirunni.

Langvarandi Covid helmingi fátíðara hjá fullbólusettum

Rannsakendur við King's College London hafa komist að þeirri niðurstöðu að bólusetningar gegn Covid-19 dragi ekki bara úr líkunum á því að smitast og veikjast alvarlega, heldur séu fullbólusettir síður líklegir til að þjást af langvarandi einkennum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×