Í einni rannsókninni var fylgst með rúmlega 600 þúsund manns úr þrettán ríkjum sem smituðust frá apríl til júlí, þegar delta-afbrigði nýju kórónuveirunnar var í töluverðri dreifingu víða um Bandaríkin.
Þar komust vísindamenn að því að óbólusettir voru 4,5 sinnum líklegri til að smitast en fullbólusettir. Þeir voru rúmlega tíu sinnum líklegri til að þurfa á sjúkrahús og ellefu sinnum líklegri til að deyja, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.
„Bólusetningar virka,“ sagði Dr. Rochelle Walensky, yfirmaður CDC á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær. Hún sagði einnig að af þeim sem lagðir voru inn á sjúkrahús í júní og júlí voru fjórtán prósent fullbólusettir. Sextán prósent þeirra sem dóu á þessu tímabili voru bólusettir.
Aðrar rannsóknir sem birtar voru í gær benda til þess að dregið hafi úr þeirri vörn sem bólusetningar gefa gegn Covid-19. Í frétt AP segir að enn sé þó óljóst hvort það sé vegna þess að virkni bólusetninga minnki, hvort virkni bóluefna sé verri gegn delta-afbrigðinu eða vegna þess að víða í Bandaríkjunum var dregið úr grímunotkun og öðrum sóttvörnum, samhliða aukinni dreifingu delta-afbrigðisins.
Skikka fólk í bólusetningu
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í gær að skylda ætti alla starfsmenn alríkisstjórnar Bandaríkjanna í bólusetningu og settar yrðu reglur um að allir vinnustaðir þar sem fleiri en hundrað starfa eigi að tryggja bólusetningu starfsmanna sinna eða sjá til þess að þeir séu skimaðir vikulega vegna Covid-19.
Sjá einnig: Ætlar að skylda ríkisstarfsmenn í bólusetningu
Í frétt New York Times segir að bandarískir vísindamenn séu sannfærðir um að tregða margra til að láta bólusetja sig hafi gert faraldur kórónuveirunnar í Bandaríkjunum verri og lengri. Rannsóknirnar sem CDC birti í gær séu vatn á millu þeirra.
Um áttatíu milljónir Bandaríkjamanna hafa neitað að láta bólusetja sig. Kannanir sína mikinn meirihluta Bandaríkjamanna hlynnta því að herða reglurnar varðandi bólusetningar í skólum, sjúkrahúsum og vinnustöðum. Kannanir sína einnig að flestir bólusettir kjósendur kenna óbólusettum og ekki ríkisstjórn Bandaríkjanna um það að faraldur kórónuveirunnar hafi versnað í Bandaríkjunum í sumar.