Eldgosið í Geldingadölum hefur haldið sig nokkuð til hlés undanfarna viku en ekkert hefur sést í hraun renna úr gígnum síðan fimmtudaginn 2. september síðastliðinn og er þetta lengsta pásan sem gosið hefur tekið sér hingað til. Virknin í Fagradalsfjalli jókst hins vegar skyndilega í morgun og fer enn vaxandi. Hraun er nú loks farið að renna úr gígnum eftir langt hlé.
„Ég var frekar hissa vegna þess að ég bjóst ekki við því að sjá nokkra hraunkviku,“ segir Matthias Vogt, flugmaður hjá Volcano Heli, en hann flaug yfir Geldingadali um klukkan tíu í morgun.
Á vesturhlið gígsins hafi hann séð hraun flæða úr gígveggnum og í vesturátt niður hlíðina.
„Á vesturhlið gígsins var lítið gat, þar sem hraunkvika rann út og niður gíghlíðina í vesturátt.“
Þegar hann hafi flogið nær gígnum hafi hann séð rauðglóandi hraun ofan í gígnum.
Matthías segist hafa flogið margoft yfir Geldingadali frá því gosið hófst í mars, jafnvel nokkrum sinnum á dag.
Hefurðu flogið oft yfir gíginn?
„Já, margoft. Í rauninn alveg síðan í mars, síðan fyrsta dag gossins hef ég flogið þarna yfir nokkrum sinnum á dag,“ segir Matthias.
Hann segist hafa verið mjög spenntur þegar hann sá hraunið flæða að nýju eftir vikulangt hlé. Í hvert skipti sem hann fljúgi yfir svæðið sé eitthvað nýtt og spennandi að sjá.
„Ég var mjög, mjög spenntur að sjá það. Auðvitað hef ég séð þetta margoft en þetta er aldrei leiðinlegt og alltaf magnað að sjá hlutina sem eru að gerast þarna,“ sagði Matthías Vogt, flugmaður hjá Volcano Heli.