Innlent

Fjöldi utan­kjör­fundar­at­kvæða geti haft á­hrif á kosninga­nótt

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá Smáralind. Þar er hægt að kjósa utan kjörfundar í Alþingiskosningunum.
Frá Smáralind. Þar er hægt að kjósa utan kjörfundar í Alþingiskosningunum. Vísir/Vilhelm

Fleiri hafa kosið utan kjörfundar nú en á sama tíma fyrir síðustu Alþingiskosningar. Fyrir fjórum árum höfðu um 4.700 greitt atkvæði á þessum tíma, en nú hafa um 9.500 manns greitt atkvæði utan kjörfundar. Sú staðreynd gæti haft áhrif á framvinduna á kosninganótt.

Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, segir tvennt geta skýrt þessa miklu fjölgun í utankjörfundaratkvæðagreiðslu.

„Annars vegar ástandið, Covid, að kjósendur séu hræddir um að lenda í sóttkví eða einangrun á kjördegi. Við erum líka með meiri opnun. Við opnuðum strax kjörstaði í Kringlunni og Smáralind og strax frá fyrsta degi var opið frá tíu til tíu alla daga vikunnar,“ sagði hún í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Þá hafi hún heyrt frambjóðendur í Alþingiskosningunum hvetja fólk til þess að kjósa utan kjörfundar.

Talin síðust

Hún segir þá að fjöldi utankjörfundaratkvæða kunni að hafa áhrif á framvindunni á sjálfri kosninganóttinni, 25. september.

„Utankjörfundaratkvæðin eru talin síðust, þannig að það er ekki byrjað að telja þau fyrr en eftir að kjörstöðum er lokað. Þetta er meira að telja þau, þau eru í umslögum og svo framvegis. Þannig að talningu gæti seinkað þess vegna,“ segir Sigríður.

Einhverra vandræða hefur gætt við meðhöndlun rafrænna ökuskírteina á kjörstöðum og hvetur Sigríður kjósendur til þess að hafa önnur skilríki meðferðis þegar haldið er á kjörstað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×