Lögreglan á Suðurnesjum ákvað fyrr í dag að loka öllu svæðinu þegar hraunstraumur fór óvænt að renna suður Geldingadali og inn í Nátthaga.
Hjálmar Hallgrímsson, vettvangsstjóri lögreglunnar í Grindavík, segir að ákveðið hafi verið að halda gönguleið A lokaðri en tryggja gönguleið B og C. Hann segir fólk komast næst sjónarspilinu með því að fara gönguleið B en sú leið sé þó erfið og ekki fyrir hvern sem er.
Tveir voru sóttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar eftir hádegið í dag. Þeir voru þá komnir á Gónhól svokollaðan og að líkindum gengið yfir nýtt hraun, að sögn Hjálmars.
„Það voru tveir komnir inn á hraunið, að öllum líkindum austan frá. Höfðu farið yfir kalt hraun og voru innlyksa. Allavega á bannsvæði. Leggjum algjört bann við því að fólk labbi yfir nýja hraunið og inn á sjónpósta. Við sóttum það fólk og tókum upplýsingar hjá því.“
Unnið er að því að bæta gönguleið C fyrir veturinn að sögn Hjálmars. Þau vilji vera við öllu búin þegar snjórinn mæti á svæðið. Aðspurður segist hann persónulega orðinn nokkuð þreyttur á gosinu og sá ekki betur en farið sé að draga úr rennslinu í Nátthaga á nýjan leik.
Lillý Valgerður Pétursdóttir ræddi við Hjálmar Hallgrímsson suður með sjó í dag.