Innlent

Ólafía heiðruð fyrir baráttu sína fyrir náttúruvernd

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólafía Jakobsdóttir tekur við viðurkenningunni úr hendi Guðmundar umhverfisráðherra.
Ólafía Jakobsdóttir tekur við viðurkenningunni úr hendi Guðmundar umhverfisráðherra.

Ólafía Jakobsdóttir hlaut í dag náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Umhverfis- og auðlindaráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson veitti Ólafíu verðlaunin í dag. Er þetta í tólfta sinn sem náttúruverndarviðurkenningin er afhent að því er segir í tilkynningu.

Ólafía hefur starfað á Kirkjubæjarstofu í tæp 20 ár, lengst af sem forstöðumaður á þekkingarsetri á Kirkjubæjarklaustri, sem sinnir rannsóknum og fræðistörfum á sviði náttúrufars, sögu og menningar. Í tíð Ólafíu á Kirkjubæjarstofu hefur t.a.m. verið lögð mikil áhersla á skráningu örnefna, fornra leiða og sagna úr Skaftárhreppi.

Í máli ráðherra við athöfnina í dag kom fram að í tíð sinni sem sveitarstjóri hafi Ólafía m.a. beitt sér fyrir því að koma á skipulagi og umhirðu í Friðlandinu í Lakagígum, einu viðkvæmasta svæði íslenskrar náttúru, og uppbyggingu annarra innviða til verndar náttúrunni í Skaftárhreppi.

Ólafía átti drjúgan þátt í endurreisn Náttúruverndarsamtaka Suðurlands árið 2005 og var ein aðaldriffjöðurin í stofnun Eldvatna - samtaka um náttúruvernd í Skaftárhreppi árið 2010. Hún hefur látið víða að sér kveða á vettvangi frjálsra félagasamtaka sem starfa að náttúru- og umhverfisvernd. Þá sat sem hún sem fulltrúi umhverfisverndarsamtaka í svæðisráði vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs frá stofnun hans til ársins 2019.

Ráðherra sagði Ólafíu vera boðbera nýrra tíma. 

„Hetja heima í héraði sem gefst aldrei upp og heldur á lofti rétti náttúrunnar. Ólafía sem hefur látið sig vernd íslenskrar náttúru varða, sérstaklega í Skaftárhreppi, hefur sýnt einstaka elju og þrautseigju. Hún er mjög vel að þessum verðlaunum komin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×