Meðal annars verður hann með daglega þætti á nýrri sjónvarpsstöð, talkTV frá og með næsta ári, en hann mun einnig skrifa pistla fyrir New York Post og breska götublaðið The Sun.
Morgan hefur komið víða við á löngum ferli, sem hófst einmitt hjá Murdoch á Sun og svo hinu sáluga News of the World. Síðan þá hefur hann meðal annars stýrt Daily Mirror og komið fram í hinum ýmsu skemmtiþáttum, þar sem helst má nefna Britain‘s got Talent og bandarísku útgáfuna af sama þætti.
Síðustu sex á stýrði hann morgunþættinum Good Morning Britain á ITV, en hætti þar í vor eftir að hafa rokið út í fússi í beinni útsendingu eftir snarpa snerru við samstarfsfélaga.
Morgan hefur verið talsvert umdeildur í gegnum árin þar sem hann var meðal annars í hringiðu símhleranahneykslisins sem skók breska fjölmiðlaheiminn í upphafi aldarinnar.
Síðan þá hefur hann blandað sér í mörg hitamál, en fá með eins afgerandi hætti og hvað varðar Harry Bretaprins og eiginkonu hans, Meghan Markle. Hann gerði lítið úr frásögn hennar um sjálfsvígshugleiðingar í tengslum við deilur innan konungsfjölskyldunnar, og hlaut fyrir vikið tugir þúsunda kvartana frá áhorfendum.
Murdoch lýsti yfir ánægju með að hafa fengið Morgan til liðs við sig – „sjónvarpsmann sem allar stöðvar vilja en engin þorir að ráða.“