Skoðun

Kosningarnar snúast um þessi þrjú mál

Bjarni Benediktsson skrifar

Það skiptir öllu hvort eftir kosningar taki við sundurlaus samtíningur margra flokka eða öflug ríkisstjórn sem getur tekist á við stór verkefni og hefur burði til að leysa áskoranir til framtíðar. Hér eru þrjú mikilvægustu málin sem ný ríkisstjórn þarf að leysa.

Kosningarnar snúast um þessi mál og hverjum er hægt að treysta fyrir þeim.

1. Lágir skattar, betri lífskjör.

Skattar halda áfram að lækka. Við sýnum ábyrgð, varðveitum stöðugleika og lága vexti.

Þannig verður atvinnulífið sterkt, nýsköpun heldur áfram að blómstraog atvinnuleysi heldur áfram að minnka.

Ekkert af þessu gerist ef hér verður sundurlaus fjölflokka ríkisstjórn sem hækkar skatta og safnar skuldum til að borga fyrir óábyrgan loforðalista.

2. Nýtum innlenda orku í stað olíu

Ótrúlegur árangur hefur náðst í rafvæðingu bílaflotans og Ísland er nú númer tvö í heiminum. Við ætlum að verða fyrst þjóða til að verða alveg óháð olíu með því að nota græna orku á skipum og í flugi.

En orkuskiptin þurfa meiri innlenda hreina orku.

Fjölflokka ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokks ræður ekki við það verkefni.

3. Burt með biðlistana

Fólk á að fá nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag, þegar hennar er þörf. Við viljum taka upp nýja þjónustutryggingu - loforð um þjónustu innan 90 daga.

Þjónustutrygging styrkir heilbrigðiskerfið og byggir á samvinnu hins opinbera og sjálfstætt starfandi heilbrigðisfólks.

Það mun ekki gerast ef Sjálfstæðisflokkurinn er ekki í ríkisstjórn.

Land tækifæranna

Við höfum fulla ástæðu til bjartsýni. Ísland hefur farið betur í gegnum erfiða tíma en löndin í kringum okkur. Atvinnuleysi fer lækkandi. Atvinnulífið styrkist á ný. Lífskjör okkar eru betri þrátt fyrir Covid. Skattar hafa lækkað. Útflutningur á hugviti hefur margfaldast.

Við erum á réttri leið og á næstum fjórum árum getum við vaxið, tekið risastór skref í loftslagsmálum með orkuskiptum, byggt upp okkar dýrmæta velferðarkerfi og fjárfest í fólki og hugmyndum.

Þetta mun gerast ef Sjálfstæðisflokkurinn er í ríkisstjórn.

Höfundur er formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×