Innlent

Spá allt að 40 m/s undir Eyjafjöllum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflóa, Vestfirði, Austfirði, Suðausturland og Miðhálendi. Gul viðvörun er í gildi í Breiðafirði og á Norðurlandi.
Appelsínugul viðvörun er í gildi fyrir höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflóa, Vestfirði, Austfirði, Suðausturland og Miðhálendi. Gul viðvörun er í gildi í Breiðafirði og á Norðurlandi. Veðurstofan

Appelsínugular viðvaranir eru í gildi fyrir stóran hluta landsins í dag og gul viðvörun á Breiðafirði og á Norðurlandi. Fólk er varað frá því að vera á ferðinni og þá ráðleggur Veðurstofa landsmönnum að ganga frá lausamunum. Á Suðurlandi má gera ráð fyrir talsverðri rigningu með tilheyrandi vatnavöxtum.

Veðurstofa spáir meðal annars breytilegri eða vestlægri átt, 20 til 28 m/s., á sunnan og austanlands í dag. „Mjög snarpar vindhviður við fjöll, allt að 40 m/s undir Eyjafjöllum. Lélegt skyggni og slæmt ferðaveður á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki er bent á að huga að lausamunum.“

Í athugasemd veðurfræðings frá því í morgun segir að með morgninum megi búast við austlægri vindátt, hvassviðri eða stormi með talsverðri rigningu, en jafnvel slyddu á heiðum norðantil á landinu. 

„Þegar kemur fram á daginn gengur miðja lægðarinnar yfir landið, frá Faxaflóa að Tröllaskaga. Þó hvasst sé allt í kringum lægðarmiðjuna, er skæðasti vindurinn sunnan hennar. Eftir hádegið mun því snúast snögglega um vindátt og vestan og suðvestan rok eða jafnvel ofsaveður skellur á sunnanverðu landinu og síðar á austanvert landið.“

Horfur næsta sólarhringinn:

„Vaxandi austlæg átt, 15-23 m/s og talsverð rigning með morgninum, en slydda á heiðum norðantil á landinu. Breytileg eða vestlæg átt síðdegis og 20-28 m/s sunnan- og austanlands. Hiti 4 til 12 stig.

Dregur úr vindi og úrkomu á vestanverðu landinu í kvöld, en austantil í nótt og fyrramálið.

Vestlæg átt 5-13 þegar kemur fram á morgundaginn og skúrir eða slydduél í flestum landshlutum. Kólnar í veðri.“

Fréttin hefur verið uppfærð




Fleiri fréttir

Sjá meira


×