Skoðun

Gleymum ekki ör­yrkjum

Ástþór Jón Ragnheiðarson skrifar

Loforð stjórnmálaflokkanna eru um margt svipuð. Það virðist ver tilhneigingin, að korter fyrir kosningar þá breytast allir í Sósíalista, þrátt fyrir að aðgerðirnar eftir kosninga sýni svart á hvítu að það er ekki tilfellið. Það hefur farið mikið fyrir því í kosningaloforðum flokkanna að lausnin á vanda þeirra sem þurfi að nýta sér velferðarkerfið sé að þeir geti unnið án skerðinga. Þetta er að sjálfsögðu mikið réttlætismál, að þau réttindi sem fólk hefur unnið sér inn í gegnum tíðina skerðist ekki við það eitt að fólk vilji halda áfram að vinna og er þessu sérstaklega beint að eldra fólki.

Þó svo málið sé þarft, nauðsynlegt og mikið réttlætismál megum ekki láta blekkja okkur og halda að þetta sé það sem kemur til með að bjarga þeim sem reiða sig á velferðarkerfið. Er þar rétt að nefna t.d. öryrkja og fatlað fólk, sem getur ekki unnið og þessi svokallaða lausn er engin lausn fyrir þau. Því þó svo við afnemum skerðingar og leyfum fólki að vinna eins og það vill, þá munu öryrkjar ennþá lifa við fátækramörk, enda örorkulífeyrir skammarlega lár og fólki ekki gefin nein tækifæri til þess að hífa sig upp. Því er alveg nauðsynlegt að enginn sé með minna en lágmarkslaun og að allir hafi grunnframfærslu.

Gleymum ekki öryrkjum. Þeim þurfum við að tryggja mannsæmandi kjör. Öllum þarf að tryggja mannsæmandi kjör, burtséð frá því hvað við ætlum að leyfa fólki að vinna mikið meðfram því litla sem þeim er skammtað.

Höfundur skipar 3.sæti á J lista Sósíalistaflokks Íslands í Suðurkjördæmi í Alþingiskosningum.




Skoðun

Sjá meira


×