Innlent

„Miklu hvassara en maður bjóst við“

Samúel Karl Ólason og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Mikil snjókoma var á sunnanverðum Vestfjörðum í dag. Þessi mynd var tekin á Kleifaheiði.
Mikil snjókoma var á sunnanverðum Vestfjörðum í dag. Þessi mynd var tekin á Kleifaheiði.

Björgunarsveitarmaður sem aðstoðaði ökumenn í vanda á Dynjandisheiði síðdegis segir veðrið í dag hafa verið mun verra en hann bjóst við. Aðstæður hafi verið afar erfiðar á heiðinni en fjórar björgunarsveitir komu að útkallinu.

Valur Smárason, björgunarsveitarmaður, var á leið niður af Dynjandisheiði þegar fréttastofa náði af honum tali.

„Það er búið að vera mjög hvasst og snjókoma og kannski veður sem ekki allir bjuggust við að yrði í dag. Ég held það hafi verið miklu hvassara en maður bjóst við og miðað við hvernig veðurfréttir voru,“ sagði Valur.

„Mest eru þetta bílar sem eru illa búnir. Það snjóaði töluvert og margir enn á sumardekkjum. Kannski margir sem voru ekki með þær upplýsingar að það væri svona þungfært.“

Aftakaveður hefur verið víða á landinu í dag og björgunarsveitir fengið yfir sig holskeflu af útköllum frá því klukkan eitt síðdegis. Hringveginum hefur verið lokað frá Kirkjubæjarklaustri að Höfn sem og undir Eyjafjöllum og yfir Klettsháls en stefnt er að opnun þess síðarnefnda klukkan átta.

Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi hefur ekki verið siglt í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×