Skoðun

Fyrir at­vinnu­lífið, fyrir fólkið

Ágúst Bjarni Garðarsson skrifar

Framsókn vann þetta kjörtímabil í anda samvinnu og skynsamlegra lausna, og við þurfum að halda því áfram á næsta kjörtímabili. Við þurfum að halda áfram að fjárfesta í fólki og búa atvinnulífinu og fyrirtækjum slíkt umhverfi að þau geti tekist á við krefjandi verkefni. Það þarf að auka verðmætasköpun og fyrirtækin þurfa að geta fjárfest í tækjum og tólum til þess að standast samkeppni og ekki síður til að ráða fólk til vinnu. Saman mun þetta auka verðmætasköpun í þjóðfélaginu, öllum til góðs. Öflugt atvinnulíf er forsenda velferðar; góðrar heilbrigðisþjónustu, traustra menntastofnanna og blómlegs menningarlífs.

Svona vinnum við

Hér í Hafnarfirði sjáum við hversu mikilvægt öflugt og gott atvinnulíf er fyrir samfélagið okkar. Í upphafi þessa kjörtímabils var álagningastuðull fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði í Hafnarfirði lækkaður úr 1,57% í 1,40%, og var það liður í því að létta undir með atvinnulífinu hér í bæ og skapa því aðlaðandi starfsumhverfi, bæði fyrir rótgróin og traust fyrirtæki sem og nýja aðila sem hingað vilja koma. Fyrirtækjum hefur fjölgað og iðnaðarhverfi Hafnarfjarðar byggjast hratt upp.

Auk þess að styðja vel við atvinnulífið var systkinaafsláttur á leikskólagjöldum aukinn til muna og nýjum systkinaafslætti komið á skólamáltíðir grunnskólabarna. Aukinn systkinaafsláttur og hærri frístundastyrkur dregur úr útgjöldum barnafjölskyldna í bæjarfélaginu og er kærkomin kjarabót fyrir barnmargar fjölskyldur. Allt er þetta í takt við fjölskylduvænar áherslur og að fjárfesta í fólki. Það er nefnilega skynsamlegt að búa fyrirtækjum traust umhverfi og um leið að létta þeim róðurinn sem þyngstar byrðar bera. Við í Framsókn vinnum í skynsömum lausnum sem þessum. Lausnir og framfarir sem fólk finnur fyrir.

Við viljum halda áfram

Við í Framsókn viljum halda áfram á þessari vegferð þar sem fjárfest er í fólki og atvinnulífinu. Þetta hefur flokkurinn gert í sveitarstjórnarmálum og á Alþingi í áratugi. Flokkurinn hefur boðað áherslur í þágu eldra fólks, lítilla- og meðalstórra fyrirtækja, barnafólks o.fl. Við náum ekki árangri með öfgafullum leiðum til vinstri eða hægri. Framsókn hefur náð árangri í fjölda ára með skynsömum lausnum á miðjunni. Framtíðin ræðst einmitt á miðjunni, og þar viljum við vera.

Höfundur er formaður bæjarráðs í Hafnarfirði og skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×