Reykjanesbær hefur undirritað samning við Íslenskra aðalverktaka hf og VSB Verkfræðistofu ehf. vegna annars áfanga við Stapaskóla en íþróttahús skólans verður næsti nýr heimavöllur Njarðvíkinga í körfunni.
Njarðvíkingar urðu bikarmeistarar á dögunum og eru líklegir til að berjast um Íslandsmeistaratitilinn í vetur. Það yrði þá fyrsti Íslandsmeistaratitill félagsins frá 2006 en jafnframt gæti það orðið sá síðasti sem vinnst í Ljónagryfjunni.
Njarðvíkingar hafa unnið alla þrettán Íslandsmeistaratitla sína í Ljónagryfjunni síðan sá fyrsti kom í hús árið 1981. Njarðvíkingar hafa reyndar líka gert tilkall til fjögurra Íslandsmeistaratitla sem Íþróttafélag Keflavíkurflugvallar vann á sjötta áratugnum en ÍKF sameinaðist Ungmennafélagi Njarðvíkur árið 1969.
Víkurfréttir segja frá því að fullbúið íþróttahús með áhorfendastúku við Stapaskóla, ásamt 25 metra sundlaug og heitum pottum, muni rísa við nýjan Stapaskóla á næstu fimmtán mánuðum. Í umfjöllun blaðsins má sjá myndir af framtíðarútliti íþróttahússins.
Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur mun þar með fá nýjan heimavöll í íþróttamannvirkinu við Stapaskóla sem menn kalla í dag Stapahöllina. Þar verður löglegur keppnisvöllur með áhorfendastæðum fyrir um ellefu hundruð manns. Til samanburðar geta innan við fimm hundruð manns rúmast í áhorfendastæðum Ljónagryfjunnar með góðu móti.
Það er oft mjög þröngt um áhorfendur í Ljónagryfjunni en Njarðvíkingar geta því tekið sex hundruð fleiri áhorfendur á heimaleiki sína í framtíðinni.
Íslenskir aðalverktakar hf. buðu lægst í framkvæmdina og unnu útboðið en VSB Verkfræðistofa ehf. mun síðan hafa eftirlit með framkvæmdum.