Innlent

Við­búin ef mikil­vægir inn­viðir verða fyrir skakka­föllum á morgun

Eiður Þór Árnason skrifar
Davíð Már Bjarnason er upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Davíð Már Bjarnason er upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Vísir/Vilhelm

Björgunarsveitir og almannavarnakerfið allt er í viðbragðsstöðu vegna óveðurs sem spáð er á morgun. Veðurviðvörun hefur verið gefin út fyrir flesta landshluta og óvissustigi almannavarna lýst yfir.

Vestfirðingar byrjuðu að finna fyrir norðvestan stórhríð í morgun og fóru björgunarsveitir á svæðinu í um tíu verkefni í dag. 

Rúta fór út af vegi við Hvammstanga snemma í morgun og var björgunarsveit í Bolungarvík kölluð út vegna skilta sem voru að fjúka og búfénaðar sem þurfti aðstoð vegna fannfergis. Þá voru björgunarsveitarmenn kallaðir til þegar flotbryggja losnaði á Bolungarvík um miðjan dag í dag.

Skoða hvort flytja þurfi mannskap

Á morgun er spáð óveðri sem getur spillt færð og valdið foktjóni, fyrst á Norðausturlandi í nótt sem gengur síðan vestur yfir Norðurland og nær hámarki á Vestfjörðum seinnipart dags á morgun.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir björgunarsveitir nú yfirfara búnað sinn og skoða hvort flytja eigi tæki og mannskap norður og vestur á land. Er einna helst horft til Vestfjarða þar sem spáð er norðvestan 20 til 28 metrum á sekúndu á morgun. Víðar er búist við hríð og nokkru fannfergi.

Davíð segir að þeim skilaboðum sé beint til fólks á Norðvestur- og Norðausturlandi að halda sig til hlés og sleppa því að ferðast að óþörfu milli staða. Þá skuli það huga vel að útbúnaði sínum ef þau þurfa að vera á ferðinni.

Funda með Landsneti og fleiri aðilum

Fulltrúar Landsbjargar hafa fundað um stöðuna í dag með fulltrúum almannavarna og fyrirtækja sem reka mikilvæga innviði á borð við rafmagnsflutnings- og fjarskiptakerfi. Hefur meðal annars verið unnið að því að samræma viðbrögð helstu aðila.

„Menn eru líka að horfa til reynslunnar á síðustu árum, aðilar vilja vera klárir ef einhverjir mikilvægir innviðir verða fyrir einhverjum skakkaföllum. Þá er kannski aðalhugmyndin að vera með nóg af tækjum og tólum svo grípa megi inn í það,“ segir Davíð.

Hann segir mjög mikilvægt að fólk á þessum svæðum fylgist vel með á morgun. Mjög slæmu veðri sé spáð víða á landinu og sífellt líklegra að sú spá verði að veruleika.

Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugula viðvörun vegna veðurs fyrir Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra. Viðvörunin er í gildi frá klukkan 10 í fyrramálið fram til 23.

Gul viðvörun vegna hefur verið gefin út fyrir höfuðborgarsvæðið, Faxaflóa, Norðurland eystra, Austurland að Glettingi og Miðhálendið. Spáð er norðvestan og vestan 15 til 23 metrum á sekúndu á morgun. Hvassara verður í vindstrengjum norðvestantil, og talsverð eða mikil slydda eða snjókoma um norðanvert landið. Hægari vindur og skúrir eða él sunnanlands. Úrkomuminna og dregur úr vindi seint annað kvöld.


Tengdar fréttir

Ó­vissu­stigi al­manna­varna lýst yfir vegna veðurs

Vegna slæmrar veðurspár á morgun 28. september hefur ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórana á Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Vesturlandi og á Vestfjörðum, lýst yfir óvissustigi almannavarna í þessum umdæmum.

Spá norðvestan stórhríð á Vestfjörðum og við Breiðafjörð

Veðurstofa Íslands spáir nú norðvestan stórhríð á Vestfjörðum á morgun. Gera má ráð fyrir 18 til 25 m/s og talsverðri snjókomu, með skafrenningi og lélegu skyggni. Þá segir Veðurstofa hættu á foktjóni og um að ræða „alls ekkert ferðaveður“.

Veðrið gæti blásið Vestfirðingum suður í Kaplakrika

Svo gæti farið að Vestri neyðist til að spila undanúrslitaleik sinn gegn Víkingi, í Mjólkurbikar karla í fótbolta, á höfuðborgarsvæðinu. Olísvöllurinn á Ísafirði verður mögulega ekki leikhæfur eftir snjókomu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×