Körfubolti

Óbólusettur Irving gæti misst af öllum heimaleikjum Brooklyn Nets

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kyrie Irving er ein af skærustu stjörnum NBA-deildarinnar.
Kyrie Irving er ein af skærustu stjörnum NBA-deildarinnar. getty/Steven Ryan

Kyrie Irving, leikmaður Brooklyn Nets í NBA-deildinni í körfubolta, hættir á að missa af heimaleikjum liðsins í vetur þar sem hann er óbólusettur. New York er ein þeirra borga í Bandaríkjunum þar sem leikmenn í innanhús íþróttum þurfa að vera bólusettir til að mega spila.

Um níutíu prósent leikmanna í NBA eru bólusettir en Irving er ekki í þeim hópi og ber fyrir sig trúarlegar ástæður.

Irving mætti ekki á fjölmiðlaviðburð Brooklyn í gær en svaraði spurningum á Zoom. Hann vildi hann lítið tjá sig um bólusetninguna, sagði að þetta væri persónulegt mál og sagði frekari upplýsinga frá sér að vænta.

Hinn stóryrti Stephen A. Smith á ESPN dró hvergi af í gagnrýni sinni á Irving í gær og sagði að Brooklyn ætti einfaldlega að skipta honum í burtu. Lítil not væru í leikmanni sem gæti bara spilað helming leikja liðsins jafnvel þótt hann sé frábær í körfubolta.

NBA hefur áhyggjur af því að ekki verði hægt að sannfæra Irving og aðra efasemdarmenn og þeir muni leiða einhvers konar andstöðu gegn bólusetningum. Meðal annarra leikmanna sem hafa greint opinberlega frá því að þeir ætli ekki að láta bólusetja sig eru Jonathan Isaac hjá Orlando Magic og Andrew Wiggins hjá Golden State Warriors.

Irving er ein af þremur stórstjörnum í liði Brooklyn ásamt Kevin Durant og James Harden. Á síðasta tímabili var Irving með 26,9 stig, 4,8 fráköst og 6,0 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Irving kom til Brooklyn frá Boston Celtics fyrir tveimur árum. Hann varð meistari með Cleveland Cavaliers 2016 og skoraði körfuna sem tryggði liðinu sinn fyrsta meistaratitil.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×