Innlent

Öryggismyndavélar ættu að eyða allri óvissu

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Ingi Tryggvason, yfirmaður kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi.
Ingi Tryggvason, yfirmaður kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi. Samsett

Ingi Tryggva­son, for­maður yfir­kjör­stjórnar í Norð­vestur­kjör­dæmi, segir það alls ekki úti­lokað að starfs­menn Hótels Borgar­ness gætu hafa farið inn í sal hótelsins á meðan at­kvæði voru geymd þar ó­inn­sigluð áður en þau voru endur­talin síðasta sunnu­dag. Hann full­yrðir þó að enginn hafi átt við gögnin, allt hafi verið eins og hann skildi við það þegar hann kom til baka og segir að öryggis­mynda­vélar úr salnum ættu að geta sannað það að ekkert kosninga­svindl hafi verið framið.

Það vakti at­hygli í dag þegar tengda­dóttir hótel­stjórans eyddi myndum af ó­inn­sigluðum kjör­gögnum á Insta­gram-reikning sínum eftir fyrri talninguna. Enginn annar er sjáan­legur í talningar­salnum á myndunum og hafa spurningar vaknað um það hvort hún hafi verið þar ein inni á milli talninganna.

Hún hefur ekki svarað í­trekuðum sím­tölum Vísis í allan dag en eigin­maður hennar sagði fyrr í dag að hann teldi það afar ó­lík­legt að hún hafi verið ein í salnum.

Ingi Tryggva­son segir lík­legast að myndirnar hafi verið teknar fyrir utan hinn eigin­lega talninga­sal en við talningu á Hótel Borgar­nesi er stórum sal skipt upp í tvo hluta; sal þar sem at­kvæðin eru talin og svo for­salur þar sem starfs­menn hótelsins sinntu störfum sínum og fram­reiddu mat og drykki fyrir kjör­nefndina.

Starfsmenn hótelsins gætu vel hafa farið 

Það er ekki lokað á milli þessara svæða en tveir inn­gangar eru að for­sal, sem Ingi kveðst hafa læst þegar talninga­fólkið fór heim sunnu­dags­morguninn áður en á­kveðið var að ráðast í endur­talningu.

Hann telur lík­legt að tengda­dóttir hótel­stjórans hafi tekið myndina úr for­salnum á meðan hann var þar sjálfur við­staddur við frá­gang eftir talninguna. Ingi segir ekkert ó­eðli­legt við það.

En hefði starfs­fólk hótelsins alveg geta farið inn í salinn þegar þú varst farinn af svæðinu?

„Já, það gætu starfs­menn hafa farið inn í rýmið þarna að framan ef þau þyrftu. Þar er meðal annars stjórn­búnaður og eitt­hvað þannig það getur vel verið að þau hafi farið þangað. En það eru öryggis­mynda­vélar á svæðinu þannig það sést náttúru­lega ná­kvæm­lega ef það hefur ein­hver gengið þar um,“ segir Ingi.

Sam­kvæmt heimildum frétta­stofu voru mynda­vélarnar í gangi þennan tíma sem ó­inn­sigluð kjör­gögnin voru geymd í salnum.

Eins og greint hefur verið frá er Karl Gauti Hjalta­son, frá­farandi þing­maður Mið­flokksins, búinn að kæra endur­talninguna til lög­reglunnar á Vestur­landi. Hún mun því væntan­lega rann­saka mynd­efni öryggis­mynda­vélanna en þeir lög­reglu­menn em­bættisins sem frétta­stofa hefur náð í hafa allir neitað að tjá sig um málið og vísað á lög­reglu­stjórann Gunnar Örn Jóns­son. Hann hefur hvorki svarað sím­tölum frétta­stofu í dag né skrif­legum skila­boðum.

Ingi í­trekar þá full­vissu sína um að enginn hafi átt við kjör­gögnin á milli talninganna. „Enda veit ég ekki hvar fólk hefði átt að fá kjör­seðla. Þegar ég kom aftur var allt ná­kvæm­lega eins og ég hafði gengið frá því. Það hefði ekki verið hægt að eiga við gögnin án þess að ég myndi sjá það,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×