Viðskipti innlent

Aug­­lýsa eftir hundrað flug­liðum og fimm­tíu flug­mönnum

Atli Ísleifsson skrifar
Áætlað er að starfsmannafjöldi Play muni tvöfaldast í kjölfar ráðninganna.
Áætlað er að starfsmannafjöldi Play muni tvöfaldast í kjölfar ráðninganna. play

Flugfélagið PLAY leitar nú að um hundrað flugliðum til starfa fyrir næsta vor, bæði í framtíðar- og sumarstörf. Jafnframt stendur til að auglýsa eftir um fimmtíu flugmönnum í næstu viku.

Í tilkynningu frá flugfélaginu segir að um sé að ræða stærstu ráðningu félagsins í einu vetfangi. Starfsmannafjöldi Play mun með þessum ráðningum tvöfaldast.

„Nú þegar starfa fimmtíu flugliðar hjá félaginu en ráðningarnar eru í takt við enn frekari umsvif PLAY sem mun taka þrjár nýjar flugvélar í notkun næsta vor. Félagið er nú þegar með þrjár vélar í rekstri. Þá er áformað að bæta við fjórum vélum árið 2023 og verða þá enn fleiri ráðnir til starfa,“ segir í tilkynningunni.

Ennfremur segir að til standi að ráða bæði flugliða með og án reynslu.

Varfærnar áætlanir

Haft er eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Play að áætlanir flugfélagsins hafi verið varfærnar við ríkjandi aðstæður. Skýr hraustleikamerki í ferðaþjónustunni auk breytinga á sóttvarnarráðstöfunum geri það að verkum að nú er tímabært að fara að manna vélarnar fyrir næsta sumar.

„Ég er vægast sagt spenntur að fá nýtt fólk í liðið okkar og við erum stolt af því að við séum að skapa öll þessi nýju störf. Það eru ekkert nema spennandi tímar fram undan og það verður ekki bara spennandi heldur líka gaman að starfa hjá okkur,“ er haft eftir Birgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×