Tilkynnt var um að 41 árs gamall íslenskur karlmaður hefði ekki skilað sér aftur í land eftir að hann fór á sæþotu út á Kalmarsund frá Köpingsvik í norðanverðu Öland á laugardag. Kafarar og þyrla á vegum sænsku strandgæslunnar leitaði mannsins í um fjórar klukkustundir án árangurs.
Staðarblaðið Ölandsbladet sagði um helgina að málið væri lögreglu ráðgáta þar sem straumar og vindar hafi verið í átt að landi þegar maðurinn hvarf. Blaðið sagði að sjónarvottur á bryggju hefði séð manninn falla af sæþotunni um tvö hundruð metra frá landi. Í fréttum blaðsins er talað um „drukknunarmál“.
Calle Persson, upplýsingafulltrúi hjá sænsku lögreglunni, segir í samtali við Vísi að vitni hafi sagst séð manninn halda út á sæþotunni. Þau hafi síðan fundið þotuna í gangi úti á sjó en að maðurinn hafi hvergi verið sjáanlegur.
Lögreglan geti ekki aðhafst mikið meira. Mannsins er talið saknað og gefin hefur verið út eftirlýsing.
Skildi björgunarvestið eftir og fór annan hring
Víðir Víðisson, frændi mannsins sem er saknað, furðaði sig á hversu lítið sænsk yfirvöld leituðu að honum. Tilkynnt hafi verið um hvarfið um klukkan 15:00 að staðartíma en leitin hafi verið blásin af klukkan 19:00 vegna myrkurs.
Í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær sagði Víðir að hann og fleiri hefðu farið út til leitar í Svíþjóð. Aðstæður til leitar hafi verið erfiðar í gær.
Hann sagði frænda sinn hafa verið að leik með börnum sínum í fjörunni á laugardaginn. Hann hafi komið í land með börnin, tekið af sér björgunarvesti og ætlað að ganga frá þotunni. Eftir það hafi hann tekið einn hring á þotunni í viðbót.
„Þegar hann fer út er vitni þarna sem sér hann detta af skíðinu og svo sést bara ekki meira til,“ sagði Víðir og fullyrti að þetta hefði gerst aðeins um tvö hundruð metra frá landi.
Samtökin Missing People í Svíþjóð hafa auglýst eftir sjálfboðaliðum í leitina. Talsmaður samtakanna sagði Ölandsbladet að leit yrði haldið áfram að manninum í dag.